„Neistinn sem kveikti í púðurtunnunni“

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, tekur við ályktun frá grunnskólakennurum …
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, tekur við ályktun frá grunnskólakennurum allra bæjarskólanna í Garðabæ, Það eru allir bæjarskólarnir, ekki einkareknu skólarnir sem að stóðu að þessari ályktun. Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Garðaskóla. Rax / Ragnar Axelsson

Grunn­skóla­kenn­ar­ar í Garðabæ af­hentu í dag Gunn­ari Ein­ars­syni bæj­ar­stjóra álykt­un þar sem þeir lýsa yfir áhyggj­um sín­um af framtíð skóla­starfs í Garðabæ. Álykt­un­in er lögð fram í fram­haldi af ákvörðun kjararáðs um launa­hækk­an­ir æðstu emb­ætt­is­manna í land­inu og seg­ir full­trúi kenn­ara ákvörðun­ina vera „neist­ann sem kveikti í púðurtunn­unni“. Bæj­ar­stjóri hef­ur boðað trúnaðar­menn kenn­ara og skóla­stjórn­end­ur til fund­ar eft­ir helgi. 

„Við af­hent­um bara þessa álykt­un og lýst­um áhyggj­um okk­ar af framtíð skóla­starfs í Garðabæ, það er það þungt hljóð í fólki,“ seg­ir Gauti Ei­ríks­son, kenn­ari í Álfta­nesskóla, í sam­tali við mbl.is. Hann seg­ir kenn­ara í bæn­um vilja koma því til skila að að þeir starfi ekki fyr­ir Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga held­ur fyr­ir Garðabæ. Bær­inn verði að bregðast við stöðunni, en samn­ing­ar grunn­skóla­kenn­ara standa laus­ir. 

„Hvað get ég gert annað?“

Gauti seg­ir ákvörðun kjararáðs hafa í raun verið „neist­inn sem kveikti í púðurtunn­unni,“ en það hefði engu að síður kviknað í henni fyrr en seinna. 

Aðspurður seg­ir Gauti það ekki hafa komið til umræðu meðal kenn­ara í Garðabæ að grípa til hópupp­sagna eða boða for­föll held­ur sé staðan það al­var­leg að kenn­ar­ar íhugi að segja starfi sínu lausu, þar sem þeir hafi ekki um annað að velja. „Hóp­ur kenn­ara sér ekki framtíð í þessu og mun bara leita annað,“ seg­ir Gauti. „Það er í raun verra, það er ekki það að fólk ætli að fara að segja upp og reyna að ná ein­hverju fram, held­ur bara; hvað get ég gert annað?“

Bæj­ar­stjóri boðar trúnaðar­menn á fund

Gunn­ar Ein­ars­son, bæj­ar­stjóri í Garðabæ, seg­ir í sam­tali við mbl.is að hann skilji að mörgu leyti óánægju kenn­ara. Hef­ur hann boðað trúnaðar­menn kenn­ara í bæn­um til fund­ar eft­ir helgi og hyggst í fram­hald­inu einnig ræða við skóla­stjórn­end­ur.

„Það er óánægja með það að samn­ing­ar skuli vera laus­ir og aukið vinnu­álag á kenn­ara og svo kem­ur þetta út­spil þarna hjá kjararáði,“ seg­ir Gunn­ar. „Í fyrsta lagi er nátt­úr­lega ekki gott að vera með lausa samn­inga og eðli­lega bregður mönn­um dá­lítið í brún þegar þeir sjá svona mikla hækk­un á einu bretti frá kjararáði,“ bæt­ir hann við. 

Gunn­ar seg­ir að nú þurfi að ræða með hvaða hætti verði samið við kenn­ara og samn­inga­nefnd bæj­ar­ins ann­ist þá vinnu. „Það eru bara samn­ingaviðræður sem þurfa að halda áfram,“ seg­ir Gunn­ar. Hann kveðst vilja heyra bet­ur í kenn­ur­um og stjórn­end­um varðandi hvernig hægt sé að út­færa síðasta samn­ing til hins betra og sjá hvaða mögu­leik­ar séu í stöðunni.

Ákvörðun kjararáðs ekki verið rædd í bæj­ar­stjórn

Spurður um ákvörðun kjararáðs um launa­hækk­an­ir seg­ir Gunn­ar hana ekki enn hafa komið til umræðu í bæj­ar­stjórn en bæj­ar­stjórn fundaði síðast í gær. Ekki hafi verið rætt um að afþakka launa­hækk­an­irn­ar eða bregðast við þeim að öðru leyti. 

„Ég held að menn séu nú bara að bíða eft­ir því að það verði mynduð ný rík­is­stjórn og þetta verði tekið fyr­ir á Alþingi,“ seg­ir Gunn­ar. „Við bíðum bara og sjá­um til. En það sem mér finnst eðli­leg­ast í þessu er að tengja bara laun, þess vegna borg­ar- og bæj­ar­full­trúa, al­mennri launa­vísi­tölu og vera þá ekki að taka ein­hver stökk inni á milli held­ur bara þró­ist laun­in eins og hjá al­menn­ingi í land­inu. Það þætti mér eðli­leg­asta staðan,“ út­skýr­ir Gunn­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert