„Neistinn sem kveikti í púðurtunnunni“

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, tekur við ályktun frá grunnskólakennurum …
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, tekur við ályktun frá grunnskólakennurum allra bæjarskólanna í Garðabæ, Það eru allir bæjarskólarnir, ekki einkareknu skólarnir sem að stóðu að þessari ályktun. Álftanesskóla, Flataskóla, Hofsstaðaskóla, Sjálandsskóla og Garðaskóla. Rax / Ragnar Axelsson

Grunnskólakennarar í Garðabæ afhentu í dag Gunnari Einarssyni bæjarstjóra ályktun þar sem þeir lýsa yfir áhyggjum sínum af framtíð skólastarfs í Garðabæ. Ályktunin er lögð fram í framhaldi af ákvörðun kjararáðs um launahækkanir æðstu embættismanna í landinu og segir fulltrúi kennara ákvörðunina vera „neistann sem kveikti í púðurtunnunni“. Bæjarstjóri hefur boðað trúnaðarmenn kennara og skólastjórnendur til fundar eftir helgi. 

„Við afhentum bara þessa ályktun og lýstum áhyggjum okkar af framtíð skólastarfs í Garðabæ, það er það þungt hljóð í fólki,“ segir Gauti Eiríksson, kennari í Álftanesskóla, í samtali við mbl.is. Hann segir kennara í bænum vilja koma því til skila að að þeir starfi ekki fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga heldur fyrir Garðabæ. Bærinn verði að bregðast við stöðunni, en samningar grunnskólakennara standa lausir. 

„Hvað get ég gert annað?“

Gauti segir ákvörðun kjararáðs hafa í raun verið „neistinn sem kveikti í púðurtunnunni,“ en það hefði engu að síður kviknað í henni fyrr en seinna. 

Aðspurður segir Gauti það ekki hafa komið til umræðu meðal kennara í Garðabæ að grípa til hópuppsagna eða boða forföll heldur sé staðan það alvarleg að kennarar íhugi að segja starfi sínu lausu, þar sem þeir hafi ekki um annað að velja. „Hópur kennara sér ekki framtíð í þessu og mun bara leita annað,“ segir Gauti. „Það er í raun verra, það er ekki það að fólk ætli að fara að segja upp og reyna að ná einhverju fram, heldur bara; hvað get ég gert annað?“

Bæjarstjóri boðar trúnaðarmenn á fund

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir í samtali við mbl.is að hann skilji að mörgu leyti óánægju kennara. Hefur hann boðað trúnaðarmenn kennara í bænum til fundar eftir helgi og hyggst í framhaldinu einnig ræða við skólastjórnendur.

„Það er óánægja með það að samningar skuli vera lausir og aukið vinnuálag á kennara og svo kemur þetta útspil þarna hjá kjararáði,“ segir Gunnar. „Í fyrsta lagi er náttúrlega ekki gott að vera með lausa samninga og eðlilega bregður mönnum dálítið í brún þegar þeir sjá svona mikla hækkun á einu bretti frá kjararáði,“ bætir hann við. 

Gunnar segir að nú þurfi að ræða með hvaða hætti verði samið við kennara og samninganefnd bæjarins annist þá vinnu. „Það eru bara samningaviðræður sem þurfa að halda áfram,“ segir Gunnar. Hann kveðst vilja heyra betur í kennurum og stjórnendum varðandi hvernig hægt sé að útfæra síðasta samning til hins betra og sjá hvaða möguleikar séu í stöðunni.

Ákvörðun kjararáðs ekki verið rædd í bæjarstjórn

Spurður um ákvörðun kjararáðs um launahækkanir segir Gunnar hana ekki enn hafa komið til umræðu í bæjarstjórn en bæjarstjórn fundaði síðast í gær. Ekki hafi verið rætt um að afþakka launahækkanirnar eða bregðast við þeim að öðru leyti. 

„Ég held að menn séu nú bara að bíða eftir því að það verði mynduð ný ríkisstjórn og þetta verði tekið fyrir á Alþingi,“ segir Gunnar. „Við bíðum bara og sjáum til. En það sem mér finnst eðlilegast í þessu er að tengja bara laun, þess vegna borgar- og bæjarfulltrúa, almennri launavísitölu og vera þá ekki að taka einhver stökk inni á milli heldur bara þróist launin eins og hjá almenningi í landinu. Það þætti mér eðlilegasta staðan,“ útskýrir Gunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka