Vafasamt Norðurlandamet í lyfjanotkun

Talið er að dauðsföllum vegna lyfjaeitrana hafi fjölgað.
Talið er að dauðsföllum vegna lyfjaeitrana hafi fjölgað. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

„Við sjáum miklu meiri notkun ávanabindandi lyfja á Íslandi heldur en annars staðar á Norðurlöndum. Það er ástæða til að hafa áhyggjur,“ sagði Ólafur B. Einarsson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá Embætti landlæknis.

„Íslendingar eru langhæstir í notkun örvandi lyfja eins og rítalíns og skyldra lyfja. Við notuðum hlutfallslega 260% meira af þeim en Svíar sem komu næstir. Árið 2013 var Ísland í fyrsta skipti, samkvæmt norrænni heilbrigðistölfræði (Nomesco), komið í efsta sæti í notkun verkjalyfja á Norðurlöndum. Þá er Ísland orðið hæst í notkun verkjalyfja, örvandi lyfja, svefnlyfja og róandi lyfja, róandi og kvíðastillandi lyfja og flogaveikilyfja sem öll eru ávanabindandi.“

 Mikil notkun verkjalyfja hér

Lyfjastofnun birti nýlega grein um notkun ópíóða, sem yfirleitt eru verkjalyf. Notkun þeirra hér var borin saman við notkun í Danmörku og í Noregi. Á undanförnum níu árum hefur notkun þessara lyfja vaxið hér um 18% en á sama dróst notkun þeirra í Danmörku saman um 14% og í Noregi um 4%.

Ólafur sagði margar skýringar vera á mikilli notkun þessara verkjalyfja hér. Þeir sem nota mest af þeim glíma við erfið veikindi.

„Við sjáum líka marga sem glíma við lyfjafíkn fá þessi lyf,“ sagði Ólafur. Þeir sem glíma við fíknina fá ekki lyfjunum ávísað á sig heldur fá aðrir lyfin og selja þau síðan eða gefa.

Heildarnotkun lyfja í flokki ópíóíða var mest á Íslandi á árinu 2015 en minnst í Noregi. Notkun parkódíns var þá um fjórðungur af allri notkun ópíóíða hér á landi.

„Við höfum séð aukningu í flestum verkjalyfjum en ávísanir parkódíns forte bera af,“ sagði Ólafur. Tramadól var gert eftirritunarskylt hér á landi árið 2012 að ósk Embættis landlæknis. „Ópíóíð-lyf eru þau sem við sjáum koma oftast fyrir sem meginorsök dauðsfalla þar sem grunur leikur á lyfjaeitrun.“ Talið er að dauðsföll vegna lyfjaeitrana færist í vöxt.

 Hættuleg blanda lyfja

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) sendi nýlega út alvarlega viðvörun um samhliða notkun verkjalyfja (ópíóíða) og róandi lyfja (benzódiazepín), þ.e. svefnlyfja, sefandi lyfja og þunglyndislyfja. Í grein Lyfjastofnunar segir að á árinu 2015 hafi yfir 8.000 Íslendingar fengið ávísað bæði ópíóíð-verkjalyfjum og róandi benzódíazepín-lyfjum á einhverjum tíma ársins.

Ólafur sagði ávísanavenjur ávanabindandi lyfja hér á landi vera áhyggjuefni. „Við teljum okkur merkja fjölgun dauðsfalla vegna lyfjaeitrana. Sterkir ópíóíðar eru oftast taldir vera orsök dauðsfallanna.“ Hann sagði ómögulegt að segja hve mörg dauðsföll verða á ári á Íslandi vegna lyfjaeitrana.

 Grunur um lyfjaeitrun

Embætti landlæknis fær matsgerðir þar sem greind eru sýni úr látnu fólki og grunur er um lyfjaeitrun. Í fyrra fékk embættið 36 slíkar matsgerðir til skoðunar. Í mörgum tilvikum er lyfjaeitrun ekki skráð dánarorsök, þótt sterk rök hnígi að því að ofnotkun lyfja hafi átt þátt í andlátinu. Þá eru ótalin slys sem verða þar sem fólk er undir áhrifum lyfja eða álag á heilbrigðiskerfið bæði þar sem fólk er að sækja í lyf og eins vegna afleiðinga misnotkunar. Ólafur sagði að þegar notkun þessara lyfja væri jafn mikil og hún væri hér mætti spyrja sig hvort þetta skapaði meiri vanda hér á landi heldur en í nágrannalöndunum. Það vissum við hins vegar ekki.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert