Heitir ekki ni og halvfjerds

Hørsholm 79ers er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta. …
Hørsholm 79ers er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta. Sandra Lind er í treyju nr. 12 og er fimmta frá hægri í efri röð. Ljósmynd/Mads Olesen

„Mér fannst bara vera kominn tími á breytingar, mig langar til að fara í viðskiptatengt nám hérna í Danmörku og ég ætla að nota þetta ár til að verða betri í körfubolta og læra dönsku.“

Þetta segir Sandra Lind Þrastardóttir, tvítug körfuboltakona úr Keflavík, sem nú spilar með körfuboltaliðinu Hørsholm 79ers sem á heimavöll í bænum Hørsholm á Sjálandi í Danmörku.

Sandra Lind fór á fyrstu körfuboltaæfingu sína þegar hún var 11 ára og æfði síðan og spilaði með liði Keflavíkur. Hún var einn af lykilleikmönnum meistaraflokksliðs kvenna, hún varð bæði Íslands- og bikarmeistari með liðinu og á að baki níu landsleiki.

Mikil stemning á heimaleikjum

„Sumt er betra hér í Danmörku, annað verra,“ svarar hún þegar hún er spurð um samanburð á körfuboltanum hér á landi og ytra. „Íþróttin sem slík er svipuð, það má meira í vörn í Danmörku. Aðalmunurinn er kannski á öllu því sem er í kringum íþróttina.“

Kvennalið Hørsholm 79ers er í öðru sæti í úrvalsdeildinni í Danmörku og að sögn Söndru Lindar er mikil stemning í bænum og nágrenni hans þegar liðið á heimaleiki. „Þeir eru alltaf vel sóttir. En það gildir því miður það sama um körfuboltann og margar aðrar íþróttagreinar; það er meiri aðsókn á karlaleikina.“

Samningur Söndru Lindar við danska liðið er að hennar sögn „semi-atvinnumannasamningur“. Hún fær greitt fyrir að æfa og spila með liðinu, æft er á hverjum degi og stundum oftar þegar líður að leikjum. „En greiðslan dugar ekki til að lifa af, ég þarf að vinna aðra vinnu með. Það er algengt og lá alltaf fyrir,“ segir hún.

Sandra Lind segist ekki vita um aðra íslenska konu sem spili með körfuboltaliði í Danmörku en segist vel geta mælt með því við áhugasamar körfuboltakonur. „Það er svo margt jákvætt við þetta, það opnast margar leiðir og svo er þetta bara svo skemmtilegt.“

Spurð hvort nafn félagsins sé borið fram á dönsku, „Hørsholm ni og halvfjerds“, eða á ensku, „Hørsholm seventy nine“, segist Sandra Lind hafa velt því fyrir sér þegar hún kom fyrst til félagsins. „En auðvitað er það enska útgáfan,“ segir hún hlæjandi. „Þetta er jú körfubolti.“

Landsliðskonan Sandra Lind Þrastardóttir, sem áður spilaði með Keflavík, unir …
Landsliðskonan Sandra Lind Þrastardóttir, sem áður spilaði með Keflavík, unir hag sínum vel í bænum Hørsholm í Danmörku. Ljósmynd/Mads Olesen
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert