Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, segir að kirkjan hafi sofnað á verðinum eftir að skólaskylda komst á og menn hafi gert ráð fyrir að skólinn sæi um uppfræðsluna. Lítil áhersla sé nú lögð á kristinfræðikennslu í grunnskólum. Þá sé ekki ásættanlegt að sjá lægri félagatölur kirkjunnar.
Þetta kom fram í ræðu Agnesar sem ávarpaði setningu kirkjuþings í dag.
Hún sagði að Lúter hefði lagt áherslu á almenna þekkingu á boðskap Biblíunnar „og það verður að segjast að okkar lúterska kirkja, þjóðkirkjan hefur ekki lagt nóga áherslu á þennan þátt. Áður en skólar tóku að nokkru leyti yfir fræðsluna hvað þetta varðar sáu kirkjunnar þjónar um uppfræðsluna og eldri kynslóð fræddi hina yngri. Eftir að skólaskylda komst á sofnaði kirkjan á verðinum og gerði ráð fyrir að skólinn sæi um uppfræðsluna. Nú hefur sú þróun orðið að lítil áhersla er lögð á kristinfræðikennslu í grunnskólum og kirkjan verður að sinna fræðsluhlutverki sínu sem skyldi,“ sagði Agnes.
„Það er ekki ásættanlegt að sjá lægri félagatölur kirkjunnar, ár frá ári og líta ekki í eigin barm hvað það varðar. Við verðum að uppfræða fólkið í landinu með öllum þeim tækjum sem í boði eru annars er hætta á því að færri og færri geri sér grein fyrir mikilvægi þess að varðveita menningararfinn hvað kristin áhrif áhrærir. Það hefur færst í vöxt að börn eru ekki skírð. Þar með fer barnið á mis við fræðslu um kristna trú og kristin lífsgildi sem mótað hafa þjóðfélag okkar um aldir,“ sagði hún ennfremur.
Hún benti á, að það væri tiltiltölulega auðvelt að setja fram fræðsluefni nú á dögum en það væri ekki nóg. Það þyrfti að fylgja því eftir að fræðsla kæmist til skila.
„Það er ekki nóg að útbúa efni og auglýsa námskeið. Aðalvinnan felst í því að vekja áhuga fólks. Til þess þarf mannafla, til þess þarf fjármagn,“ sagði biskup.
Agnes benti ennfremur á að þjóðkirkjuhugtakið hefði fyrst verið nefnt í stjórnarskránni sem staðfest hefði verið hér á landi árið 1874.
„Ákvæði hennar um þjóðkirkjuna hafði mikil áhrif vegna ákvæða hennar um vernd og stuðning ríkisvaldsins við kirkjuna. Það ákvæði er enn í gildi eins og kunnugt er og samkvæmt þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 vill meiri hluti þjóðarinnar að svo verði áfram. Hlýtur það að benda til þess að þjóðin vilji enn um sinn láta kristin gildi og lífsskoðun ráða för í mótun samfélagsins. Á meðan núverandi stjórnarskrá gildir hlýtur sá skilningur að ríkja, að það sé viljayfirlýsing ríkisins að það vilji standa á kristnum grunni, viðurkenni að þjóðmenningin byggist á kristnum verðmætum og vilji styðja kirkjuna til áhrifa á fólkið í landinu hvað varðar hugsunarhátt og framkomu,“ sagði Agnes.