Gísli Ásgeirsson er nýr Íslandsmeistari í skrafli en hann sigraði á Íslandsmeistaramótinu sem fram fór í Íþöku, bókasafni Menntaskólans í Reykjavík, um helgina. Þetta er í annað sinn sem Gísli hlýtur titilinn. Hann mætti Hildi Lilliendahl í úrslitaviðureigninni, en Hildur fékk sérstök verðlaun fyrir dónalegustu orðin í keppninni.
Frétt mbl.is: Þeir bestu á Íslandi etja kappi
„Hann er bara bestur,“ segir Reynir Hjálmarsson, formaður Skraflfélags Íslands, í samtali við mbl.is um nýkrýndan sigurvegara.
Hildur fékk verðlaun í dónaflokknum, Lenku-verðlaunin svokölluðu, sem eru sérstök heiðursverðlaun í nafni tékkneskar stúlku sem spilaði oft með skraflfélaginu.
Hildur lagði niður orðin „hóra“ og „mella“ í sama leiknum og þá lagði hún til að mynda einnig niður orðin „skuð“ og „belli,“ þágufallið af orðinu „böllur“.
„Þetta var uppsafnað hjá Hildi, þetta voru svo mörg dónaleg orð og okkur fannst svo viðeigandi að hún skyldi vinna þennan flokk,“ segir Reynir léttur í bragði.
Að sögn Reynis er Gísli vel að sigrinum kominn, en viðureignin var spennandi alveg fram undir hið síðasta. Þetta er í fyrsta skiptið sem spilað var með nýjum stafgildum, en samkvæmt þeim endurspegla gildi og fjöldi stafanna í leiknum tungumálið með réttum hætti og gafst það afar vel að sögn Reynis.