Héldu um hvorn annan en sofnuðu aldrei

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna kom að leitinni.
Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna kom að leitinni. mbl.is/Alfons

„Þegar við náðum sambandi við Neyðarlínuna, sem fann nákvæma staðsetningu, vorum við hólpnir. Við héldum því kyrru fyrir á sama stað og eftir nokkra klukkutíma komu björgunarmenn,“ segir Valdimar Gunnar Sigurðsson, annar mannanna tveggja sem leitað var liðna nótt.

Valdimar og systursonur hans, Daði Rúnar Jónsson, voru á rjúpnaveiðum en þeir lögðu upp frá Slitvindastöðum í Staðarsveit á sunnanverðu nesinu á laugardagsmorgun og um kl. 14.30 ákváðu þeir að snúa aftur til byggða.

„Við töldum okkur vera á réttri leið til baka en þegar við komum að þverhníptu bjargi og háum fossi sem við höfðum ekki séð vissum við að leiðin væri ekki rétt. Snerum því við en komum aftur í landslag sem við þekktum ekki áður og héldum því aftur til baka,“ segir Valdimar.

Valdimar Gunnar Sigurðsson.
Valdimar Gunnar Sigurðsson.

Þegar hér var komið sögu var orðið dimmt og ákváðu frændurnir þá að láta fyrir berast undir háum steini.

„Við héldum um hvorn annan til þess að halda hita og sofnuðum aldrei,“ segir Valdimar. Rétt fyrir klukkan eitt um nóttina urðu þeir varir við þegar þyrla Landhelgisgæslunnar flaug yfir og ætluðu að þeir myndu finnast með hitamyndavél. Sú varð ekki raunin.

Það var um kl. 10 í morgun, þegar bjart var orðið, að frændurnir komust í gott farsímasamband og gátu gert viðvart. Þá voru þeir í hlíðum Gráborgar, ofan Hestdala sem ganga inn af Kolgrafafirði norðanvert á Snæfellsnesi.

„Við vorum alveg búnir á því; blautir og hraktir,“ segir Valdimar. „Björgunarsveitarmennirnir, þessar einstöku hetjur, komu okkur strax í skjól; voru með þurr og hlý föt og fylgdu okkur svo til byggða.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert