Á gólfinu en bestur í gólfinu

Gunnar Nelson bardagakappi lætur sitt ekki eftir liggja við framkvæmdirnar …
Gunnar Nelson bardagakappi lætur sitt ekki eftir liggja við framkvæmdirnar og lætur til sín taka „á gólfinu“ líkt og aðrir iðkendur. Hann mundaði slípirokkinn þegar ljósmyndari Morgunblaðsins leit inn í gær. mbl.is/Golli

Bardagaklúbburinn Mjölnir er rekinn án ríkisstyrkja og hefur klúbburinn byggst upp að verulegu leyti á sjálfboðavinnu og dugnaði. Klúbburinn hefur stækkað ört á undanförnum árum samhliða vaxandi vinsældum MMA á Íslandi.

Nýlega gengu forsvarsmenn Mjölnis frá langtímaleigu á húsnæði gömlu Keiluhallarinnar í Öskjuhlíð og segir Jón Viðar Arnþórsson, formaður Mjölnis, stefnt að því að taka nýja húsnæðið í notkun um áramót.

Mjölnir fékk húsnæðið afhent í síðustu viku en það hefur verið lengi í farvatninu að klúbburinn flyttist í húsnæði gömlu Keiluhallarinnar; Morgunblaðið greindi frá því í nóvember á síðasta ári að klúbburinn hygðist flytja í Keiluhöllina á vormánuðum 2016. Jón Viðar segir fjárfesta hafa reynt í tvö ár að kaupa húsnæðið fyrir félagið en það hafi ekki tekist fyrr en í síðasta mánuði.

Ætla að opna fyrir áramót

Á lokametrunum var þó útlit fyrir að húsnæðið rynni úr greipum Mjölnismanna eftir að hópur fjárfesta dró sig úr verkefninu skömmu áður en húsnæðið átti að fara á uppboð. Hópur fjárfesta á vegum Arnars Gunnlaugssonar kom þó að verkefninu á lokametrunum og náðist samkomulag einni mínútu áður en uppboð á húsnæðinu átti að hefjast í lok síðasta mánaðar.

Jón Viðar segir það verðugt verkefni að koma húsnæðinu í stand fyrir áramót enda hafi framkvæmdirnar farið seinna af stað en upphaflega stóð til. „Við ætlum að ná því,“ segir Jón Viðar.

Sameiginlegt verkefni iðkenda

„Á hverju einasta kvöldi hafa verið hérna á bilinu 30 upp í 80 sjálfboðaliðar að vinna í húsinu,“ segir Jón Viðar. Og er Gunnar Nelson einn af þeim? „Já, hér eru allir þjálfararnir og MMA-keppnisliðið. Gunni er búinn að vera hérna nánast alla daga með slípirokkinn og sögina,“ segir Jón Viðar léttur í bragði.

Spurður út í þessa samheldni, hvort það sé ekki einstakt að íþróttafélag nái að byggja íþróttahöll, í þessu tilfelli bardagahöll, með sjálfboðaliðum, segir Jón Viðar svo vissulega vera. „Ég held að maður finni þetta ekki á mörgum stöðum,“ segir hann. Jón segir að framkvæmdirnar í Loftkastalanum 2011 hafi verið með sama hætti, iðkendur hafi látið hendur standa fram úr ermum.

„Við ætlum að taka yfir. Við ætlum að gera þetta að þjóðaríþrótt á Íslandi. Núna erum við með 1.400 iðkendur, markmiðið er að ná í kringum þrjú þúsund iðkendum.“

Bardagaklúbburinn Mjölnir stefnir að því að taka nýja húsnæðið í …
Bardagaklúbburinn Mjölnir stefnir að því að taka nýja húsnæðið í notkun á þessu ári. Iðkendum hefur fjölgað mikið að undanförnu. mbl.is/Golli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert