Elti óþægar kindur upp á klettasyllu

Reimar með hundunum Bolt og Freknu.
Reimar með hundunum Bolt og Freknu. Ljósmynd/Reimar Sigurjónsson

Reimari Sigurjónssyni, bónda á Felli við Finnafjörð, var bjargað úr sjálfheldu í Gunnólfsvíkurfjalli í nótt. Reimar segist hafa verið rólegur á meðan á öllu stóð enda hafi veðrið verið ágætt og syllan nokkuð stór. Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitinni Hafliða voru aðstæður erfiðar en björgunarstarf gekk vel.

Frétt mbl.is: Bjargað úr sjálfheldu

Frétt mbl.is: Sérþjálfaðir fjallabjörgunarmenn aðstoða

Reimar komst í sjálfheldu um þrjúleytið í gær þegar hann var að sækja þrjár kindur sem hann og Dagrún kona hans höfðu komið auga á í fjallinu.

 „Við spýttumst af stað hjónin, ætluðum bara rétt að skjótast og ná í þær. Svo urðu þær óþægar og fóru upp á syllur. Ég ætlaði náttúrulega að ná þeim og fór þá upp á syllurnar líka en var bara rétt kominn upp þegar ég sá að ég var strandaglópur,“ segir Reimar í samtali við mbl.is.

Við björgunarstarf í Gunnólfsvíkurfjalli.
Við björgunarstarf í Gunnólfsvíkurfjalli. Mynd/Björgunarsveitin Súlur

Reimar hringdi sjálfur í neyðarlínuna og lýsti aðstæðum, en með honum á syllunni voru tveir border collie-hundar, þau Bolt og Frekna. „Það var ósköp notalegt að hafa þau. Ég sat með þau svona til skiptis.“ Reimar segir að hundarnir hafi bæði veitt honum félagsskap og haldið á honum hita ef honum kólnaði.

Reimar segist hafa verið rólegur á meðan á öllu stóð: „Það er sérgrein mín að vera rólegur. Mér var ekkert kalt þannig, bara svona smá hrollur í manni. Syllan var svo stór að ég gat labbað þarna 20-30 metra fram og til baka. Þetta var ekkert svona smá klettasnös.“

Reimar vill koma þakklæti til björgunarsveitanna, sem hann segir að hafi staðið sig mjög vel. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti björgunarsveitarmenn í Ásbyrgi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti björgunarsveitarmenn í Ásbyrgi. Mynd/Björgunarsveitin Súlur

Aðstæður erfiðar en allt gekk vel

Þórarinn Þórisson er slökkviliðsstjóri Langanesbyggðar og varaformaður björgunarsveitarinnar Hafliða. Í samtali við mbl.is segir Þórarinn að fyrstu menn hafi verið komnir á staðinn rétt fyrir klukkan fimm í gær en að björgunin hafi verið erfið viðureignar. „Það sem tafði þetta var myrkrið og hvað þetta var bratt og erfitt. Þeir voru komnir í fjöruna um klukkan korter í fimm og þá átti eftir að finna hann. Um hálfsex þegar við vorum ekki búnir að finna hann kölluðum við á þyrlu og allt það lið sem við gátum.“

Þórarinn segir það hafa bjargað málunum að bátarnir Geir ÞH 150 og Finni lýstu upp bjargið með kösturum. Rétt fyrir fjögur í nótt hafi fjallabjörgunarmenn svo að lokum komið Reimari niður. „Þeir fikruðu sig upp til hans, boruðu í bergið og settu línu til að tryggja niðurleiðina. Þetta var snarbratt og mjög laust í þessu.“

Þórarinn segir að þótt aðstæður hafi verið erfiðar hafi allir staðið sig gífurlega vel. Reimar hafi verið á syllu í um 300 metra hæð en í stöðugu talsambandi við björgunarsveitarmenn. Hann skilar kveðjum til allra sem komu að björguninni og þakkar góða aðstoð.

Björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði, Akureyri og Reykjavík aðstoðuðu við leitina.
Björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði, Akureyri og Reykjavík aðstoðuðu við leitina. Mynd/Súlur

Grillskálanum haldið opnum yfir nóttina

Grillskálanum á Þórshöfn er alla jafna lokað klukkan 20 á kvöldin en í gær var honum haldið opnum svo að björgunarsveitarmenn og aðrir gætu fengið mat og drykki á meðan á björgunarstarfinu stóð. Kapítóla Rán Jónsdóttir er annar eigenda Grillskálans, en hún situr jafnframt í stjórn björgunarsveitarinnar Hafliða.

Í samtali við mbl.is segir Kapítóla að tveir starfsmenn hafi staðið vaktina til miðnættis en þá hafi hún og maðurinn hennar tekið við. Um 20-25 manns fengu að borða í skálanum, en honum var ekki lokað fyrr en um sjöleytið í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert