Kona á fertugsaldri hefur verið ákærð af embætti héraðssaksóknara vegna sérstaklega hættulegrar líkamsárásar með því að hafa ráðist að fyrrverandi sambýlismanni sínum og barnsföður með hnífi fyrir utan verslunarmiðstöðina Austurver hinn 9. apríl 2015.
Í ákæru málsins kemur fram að hún hafi stungið manninn í átt að brjóstkassa og kviði með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á hægri hendi við að verjast hnífnum.
Samkvæmt auglýsingu lögreglunnar frá deginum eftir atvikið, þar sem óskað var eftir vitnum að málinu, átti hin meinta árás sér stað austanmegin við verslunarkjarnann, en tilkynnt var um atvikið um morguninn.
Farið er fram á að konan verði dæmd til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.