Ákvörðun kjararáðs um miklar hækkanir launa ráðamanna umfram almenna launaþróun gengur í besta falli gegn tilgangi laga um kjararáð en í versta falli er um beint lögbrot að ræða. Þetta skrifar Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag.
Bendir hann á að kjararáð skuli ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði svo „að ekki sé hætta á að úrskurðir [kjararáðs] raski kjarasamningum þorra launafólks og stefni þar með stöðugleika í efnahagslífinu í hættu […] [kjararáð] ber þannig að hafa hliðsjón af launastefnu á vinnumarkaðnum en ekki móta hana“.
Jón segir þrjá aðila bera ábyrgð og geta breytt úrskurði kjararáðs. Ráðið sjálft geti gefið út annan úrskurð sem lækki laun ráðherra og þingmanna. Forseti geti sett bráðabirgðalög áður en þing komi saman nema kjararáð lækki launin eða hann fái það staðfest frá formönnum allra flokka að Alþingi muni vindi ofan af ákvörðuninni.
„Ef þessir þrír aðilar bregðast allir þá mun ég kæra ákvörðun kjararáðs til dómstóla og hef nú þegar fengið til þess lögfræðing.“