Skýrsla Rauða krossins um aðstæður aðþrengds fólks í Reykjavík hefur verið tekið út af vef samtakanna, en unnið er að nokkrum leiðréttingum í kjölfar þess að upp komst um nokkrar villur í henni. Hermann Guðmundsson, formaður verkefnastjórnar skýrslunnar, segir þetta vera minniháttar lagfæringar sem breyti engu varðandi stóru myndina.
Frétt mbl.is: Hundruð barna í fátæktargildru
Frétt mbl.is: Ógnvænlegur húsnæðisskortur
Frétt mbl.is: Skýrslan lýsir alvarlegri stöðu
Hermann segir að fram hafi komið upplýsingar um að ákveðin tölfræði í tengslum við flóttamenn og innflytjendur hafi verið orðin gömul. Nú sé unnið að því að setja inn réttar upplýsingar.
Þá verði einnig fjarlægð ummæli viðmælanda í skýrslunni þar sem haft var eftir að Garðabær ætti íbúðir í Reykjavík og lánaði þær fólki til að það fengi heimilisfesti í Reykjavík. Þannig væri málinu ýtt yfir á næsta sveitarfélag. Hermann segir þetta rangar upplýsingar og að brugðist hafi verið strax við og bæjarstjóri Garðabæjar beðinn afsökunar.
„Þetta eru minniháttar lagfæringar og breytir engu í stóru myndinni,“ segir Hermann. Þannig standi niðurstaða skýrslunnar óbreytt. Hann ítrekar að skýrslan sé ekki opinber rannsókn heldur sé hún gerð fyrir Rauða krossinn í Reykjavík svo hann geti stýrt sínu verkefnavali við að aðstoða hina verst settu sem best.
Hermann segir að gera megi ráð fyrir að endurbætt skýrsla verði komin inn seinna í dag.