Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fimm ára drengs sem norskur dómstóll fól í umsjá barnaverndaryfirvalda í Noregi.
Forsjá var dæmd af móðurinni, Elvu Christinu, af norskum dómstól og Héraðsdómur Reykjavíkur hafði úrskurðað, á grundvelli Haag-samningsins frá 1980, að barnaverndarnefnd í Kristiansand í Noregi hefði heimild til að fjarlægja drenginn úr umsjá móður sinnar hér á landi og flytja hann til Noregs í fóstur þar sem móðirin bjó.
Hæstiréttur hefur nú, eins og áður sagði, staðfest þann úrskurð.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að barnaverndarnefnd hefði fyrir tilstuðlan héraðsdóms aflað yfirlýsingar norskra yfirvalda um að ólögmætt hefði verið að fara með drenginn frá Noregi og halda honum.
Þar kom fram að nefndin hefði forsjárrétt yfir barninu samkvæmt fyrrgreindum úrskurði og norskum lögum. Samkvæmt lögum, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna frá árinu 1995, kæmi það ekki í hlut íslenskra dómstóla að taka þá afstöðu til endurskoðunar.
Þá var ekki talið að afhending á barni eftir lögum, til þess sem hefur forsjárrétt, fæli í sér brottvísun úr landi í skilningi 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar og girti það ákvæði því ekki fyrir að barn með íslenskt ríkisfang yrði afhent á grundvelli laganna.
Samkvæmt þessu var hinn kærði úrskurður staðfestur.
Frétt mbl.is: Hæstiréttur dæmir í máli drengsins