„Þetta kemur mér ekki á óvart. Ég er auðvitað harmi slegin, en þetta kom mér ekki á óvart,“ segir Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, í samtali við mbl.is spurð um niðurstöður forsetakosninganna í Bandaríkjunum sem fram fóru í gær þar sem Donald Trump, frambjóðandi Repúblikanaflokksins, vann sigur. Hún vísar í þeim efnum til þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi síðast sumar þar sem meirihluti kjósenda samþykkti að segja skilið við Evrópusambandið þó að flestir hafi reiknað með annarri niðurstöðu.
„Ég fékk að heyra það frá nokkrum vinum mínum að ég væri fullsvartsýn,“ segir Birgitta. „Ég upplifði nákvæmlega sömu afneitun á möguleikanum. Að eitthvað óvænt eins og þetta gæti gerst. Miðað við allt sem hefur verið að gerast hjá Hillary Clinton [frambjóðanda Demókrataflokksins],“ segir hún. Svo virtist ennfremur eins og enginn hafi verið undirbúinn fyrir þetta. Þar með talið íslensk stjórnvöld. Þetta hafi komið á óvart eins og til að mynda niðurstaða þjóðaratkvæðisins í Bretlandi. „Þú sérð bara fjármálamarkaðina.“
Miðað við framgöngu Trumps og áhangendur hans virðast fáir hafa reiknað með að hann ynni sigur. Birgitta segist einkum óttast það umburðarleysi sem Trump hefur talað fyrir. Þetta gæti einnig skipt miklu fyrir hagsmuni Íslands. Spurning væri til að mynda hvort Trump gerði alvöru úr því að rukka Íslendinga og aðrar NATO-þjóðir um greiðslur fyrir hervernd. „Ég vona auðvitað að yfirlýsingar hans séu bara á nösunum á honum en ef þær eru skoðaðar þá ýtir það óneitanlega undir þá tilfinningu að við lifum á mjög háskalegum tímum.“