Óvíst hvað stóryrði Trumps þýða í raun

Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi sendiherra Íslands í …
Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi sendiherra Íslands í Washington. mbl.is/Golli

Geir H. Haarde, sendiherra Íslands í Washington, segir að það hafi komið sér á óvart, rétt eins og flestum öðrum, að Donald Trump skyldi hafa náð kjöri sem forseti Bandaríkjanna.

„Þessi úrslit eru mjög óvænt og ganga þvert á allar skoðanakannanir og jafnvel fyrstu útgönguspár í gærkvöldi,“ segir Geir og tekur fram að Trump hafi  óvænt náð yfirhöndinni í lykilríkjum á borð Flórída, Norður-Karólínu og Ohio.

„Svo tókst honum sömuleiðis að rjúfa múrinn sem talinn var órjúfanlegur í Pennsylvaníu, Wisconsin, Michigan og víðar og með því hjó hann djúp skörð í fylgi mótframbjóðandans Clinton. Þessi úrslit koma öllum á óvart hér, fréttaskýrendum og hinum ýmsu spekingum sem tjá sig hér í útvarpi og sjónvarpi.“

Óvissa um framhaldið

Að sögn Geirs ríkir mikil óvissa um framhaldið, því Trump hafi ekki lagt fram skýra stefnu í öllum málum. Nefnir hann í því sambandi innanríkismál en ekki síður utanríkismál gagnvart ólíkum heimshlutum. „Hann hefur komið fólki á óvart í kosningabaráttunni, hvað hann hefur sagt gagnvart Japan, Suður-Kóreu en einnig Atlantshafsbandalaginu. Núna á eftir að koma í ljós hvað þetta þýðir allt saman. Eflaust mun skipta miklu máli hverja hann fær sér til fulltingis í ráðherraembætti og sem helstu ráðgjafa.“

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna. AFP

Býst ekki við breytingum á sambandi

Spurður hvort hann hafi áhyggjur af komandi valdatíð Trumps segist Geir ekki vilja láta í ljós miklar persónulegar skoðanir á því. „En auðvitað veit maður aldrei hvað stóryrði í kosningabaráttu raunverulega þýða daginn eftir kosningar þegar menn eru komnir með völd og ábyrgð. Það er gömul saga sem er þekkt úr pólitík alls staðar,“ segir hann og býst ekki við því að neinar sérstakar breytingar verði á sambandi Íslands og Bandaríkjanna.

„Það er það sem við horfum mest á hér á þessari skrifstofu en auðvitað er það óvissu undirorpið hvaða afstöðu hann tekur gagnvart bandalagsríkjum í NATO. Það getur haft óbein áhrif á okkur í leiðinni.“

Gæti hitt Trump á næsta ári

Trump tekur við völdum eftir tíu vikur. Geir kveðst ekki vita hvort og þá hvenær hann muni hitta nýja forsetann. Hugsanlega gæti það gerst á næsta ári. „Sendiherrar hitta forseta Bandaríkjanna annað slagið, aðallega við sérstök tækifæri í Hvíta húsinu en það er ekkert þannig á dagskrá ennþá.“

Geir Haarde þegar hann afhenti Barack Obama, Bandaríkjaforseta, trúnaðarbréf sitt …
Geir Haarde þegar hann afhenti Barack Obama, Bandaríkjaforseta, trúnaðarbréf sitt í Hvíta húsinu. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Undirliggjandi gremja

Hann segist hafa fylgst vel með kosningabaráttunni allt til enda, bæði starfs síns vegna og sem gamall áhugamaður um bandarísk stjórnmál, síðan hann var í námi vestanhafs fyrir fjórum áratugum.

„Ég hafði ánægju af því að sækja flokksþingið hjá Repúblikönum og reyndar hjá báðum flokkum og hef fylgst náið með þessu allan tímann. Ég held að allir hafi átt von á því að Hillary með alla sína reynslu og þekkingu á stjórnkerfinu myndi sigra. En kannski var það út af því að hún er úr kerfinu að hún tapaði því fólk var greinilega að leita að einhverju allt öðru,“ greinir hann frá. „Það er undirliggjandi hér einhver gremja sem hefur brotist út í þessum kosningum.“

Geir nefnir að Trump hafi fengið mikið fylgi hjá stærsta kjósendahópnum, hvítum karlmönnum, auk þess sem hann hafi fengið meira fylgi á meðal fólks af suðuramerískum uppruna en menn bjuggust við.

„Það á eftir að sundurgreina þetta allt saman og svo fara menn í að greina hvað gerðist hjá Demókrötum því fram eftir kvöldi í gær voru þeir mjög sigurvissir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert