Trump hluti af „popúlískri bylgju“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar.
Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar. mbl.is/Styrmir Kári

„Ég er bara hálfsleginn yfir þessu. Þetta eru óvæntar og held ég mjög neikvæðar fréttir. Miðað við hvernig Trump hefur talað og látið eru þetta nokkur skref aftur á bak fyrir frjálslynda pólitík í Bandaríkjunum. Þannig að maður hefur áhyggjur af því að þetta geti haft slæm áhrif þar og líka bara á heimsbyggðina. Maður er eiginlega að hefja eitthvert sorgarferli.“

Þetta segir Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar um sigur Donalds Trumps, frambjóðanda Repúblikanaflokksins, í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í gær. „Það er ekki hægt annað en að túlka þetta sem hluta af, eigum við að kalla það, popúlískri bylgju og endurnýjaðri vantrú á pólitískum elítum og um leið skipbrot og vangetu pólitísku elítunnar til þess að tala til alþýðunnar og það er auðvitað áhyggjuefni líka. Og ekki bara í Bandaríkjunum.“

Þetta sé sama þróun og hafi átt sér stað í Bretlandi þegar meirihluti kjósenda ákvað að segja skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæði þar í landi síðasta sumar. Sem og víðar í Evrópu. „Þannig að maður er ansi hræddur um að þetta sé hluti af einhverju stærra trendi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert