Helmingi lengur að byggja en í Noregi

Hér á landi þarf tæplega helmingi fleiri vinnustundir til að …
Hér á landi þarf tæplega helmingi fleiri vinnustundir til að byggja hvern fermetra af íbúðarhúsnæði en í Noregi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Á Íslandi þarf 35-60% fleiri vinnustundir en í Noregi til að byggja hvern fermetra íbúðareiningar í fjölbýlishúsi. Þannig þarf í Noregi aðeins 23 vinnustundir á hvern fermetra, en hér á landi 31-37 tíma. Þetta kemur fram í rannsókn Ævars Rafns Hafþórssonar og Þórólfs Matthíassonar, en niðurstöðurnar voru kynntar á Þjóðarspegli, ráðstefnu í félagsvísindum, sem fór fram í Háskóla Íslands nýlega.

Gæti hækkað laun og lækkað fasteignaverð

Ævar hefur sjálfur verið iðnaðarmaður í 20 ár og segir í samtali við mbl.is að hann hafi vitað að einhver munur væri á framleiðni milli landanna en að niðurstaðan hafi komið honum á óvart. Segir hann að helstu ástæður þessa mikla munar séu skipulag á vinnustað og ör starfsmannavelta vegna djúpra hagsveiflna.

Með því að bæta framleiðnina segir Ævar að margt geti áunnist. Í fyrsta lagi þýði aukin framleiðni að hægt sé að klára verk á skemmri tíma og þannig sé hægt að draga úr framleiðslukostnaði. Í öðru lagi geti aukin framleiðni líka slegið á framboðsskort íbúðarhúsnæðis eins og þann sem sé hér á landi í dag. Í þriðja lagi geti aukin framleiðni leitt til þess að hægt sé að greiða iðnaðarmönnum hærri laun og það hafi verið reynslan í Noregi. Að lokum segir hann þetta geta haft jákvæð áhrif á stýrivexti þar sem aukin framleiðni búi ekki til þenslu heldur auki framleiðslugetu hagkerfisins.

Skipulag verktakafyrirtækja ekki í lagi hér

Aðspurður hvað það sé við skipulag á vinnustöðum hér sem dragi úr framleiðni segir Ævar að það séu nokkrir samverkandi hlutir sem þar spili inn í. Nefnir hann að í Noregi eigi fyrirtæki almennt meira eigið fé og fjármagnskostnaðurinn sé lægri. Vegna þess séu blokkir fullkláraðar áður en íbúum sé hleypt inn í þær. Hér á landi sé það aftur á móti lenska að hleypa inn í nokkrar íbúðir þótt aðeins hálf blokkin sé kláruð. Þetta hægi oft á byggingarferlinu.

Ævar Rafn Hafþórsson, rannsakaði framleiðni í byggingargeiranum hér á landi …
Ævar Rafn Hafþórsson, rannsakaði framleiðni í byggingargeiranum hér á landi í samanburði við það sem gerist í Noregi. Mynd/aðsend

Þá segir Ævar að mikil starfsmannavelta vegna djúpra hagsveiflna hér á landi valdi því að mannskapur hverfi oft úr greininni, jafnvel úr landi. Almennt megi segja að menn nái upp framleiðni með því að vinna saman og að vinna lengur í greininni. Hér hafi aftur á móti reglulega komið niðursveiflur þar sem óreyndustu mönnunum er sagt upp og því þurfi að byrja með nýja óreynda menn frá grunni í næstu uppsveiflu.

48% fleiri vinnustundir hér á landi á hvern fermetra

Ævar segir þennan mikla mun á framleiðni koma sér mikið á óvart. Hann hafi búist við um 15%, en ekki svona gríðarlega miklum. Munurinn sé aftur á móti á bilinu 34,5% til 61% eftir því hvaða íbúðastærðir er verið að miða við og er miðgildið 48%. Það þýðir að hér á landi þarf 48% fleiri vinnustundir á hvern fermetra en í Noregi.

Hann segir að næstu skref séu að þessar tölur séu teknar áfram og nánar sé skoðað nákvæmlega hvað liggi þar á bak við. Segir hann iðnaðarmenn sem hann hafi rætt við hingað til hafa tekið vel í þessa úttekt hans og að menn viðurkenni þennan vanda. Þannig hafi meðal annars iðnaðarfélög beðið hann um að fjalla um niðurstöðurnar við félagsmenn sína til að varpa ljósi á málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert