Nú liggur fyrir hvernig þingflokkum verður skipt í herbergi í Alþingishúsinu. Nauðsynlegt var að gera breytingar því einn þingflokkur bættist við eftir Alþingiskosningarnar og stærðarhlutföll flokka breyttust milli þinga.
Stærstu tíðindin eru þau að Framsóknarflokkurinn og Vinstri græn skiptast á herbergjum. Þingflokkur Framsóknarflokksins fer í það herbergi sem kallað er gula herbergið en Vinstri græn fara í græna herbergið.
Framsóknarmenn hafa haft græna herbergið til afnota frá árinu 1942, að undanskildu kjörtímabilinu 2009-2013. Á því kjörtímabili urðu þeir einnig að skipta á herbergjum við Vinstri græn, að því er fram kemur í umfjöllun um herbergjaskipan flokkanna á Alþingi í Morgunblaðinu í dag.