„Við höfum séð boðskap sem er mikil afturför í mannréttindabaráttu. Það virðist allt í einu vera eðlilegt að útskúfa hópum,“ segir Gezim Haziri í samtali við mbl.is. Efnt hefur verið til samstöðufundar fyrir utan bandaríska sendiráðið klukkan 16.30 í dag vegna úrslita forsetakosninganna vestanhafs.
„Eftir forsetakosningar í Bandaríkjunum er ljóst að samstaða fyrir mannréttindi, jafnrétti og virðingu er nauðsynleg sem aldrei fyrr. Ofbeldi á hendur hinum ýmsum jaðarhópum hefur rokið upp, líkt og gerðist við Brexit. Fólk víða um heim er því uggandi og sjaldan verið ríkari ástæða að sýna samstöðu gegn ofbeldi,“ stendur á Facebook-síðu fundarins.
„Fötlun er efni í grín. Að mismuna fólki á grundvelli trúarbragða, kynhneigðar og hörundslitar er eðlilegt. Að stærra sig á kynlífsáreiti er boðið sem eðlilegt karlaklefa-samtal,“ bætir Gezim við. Akkeri, Samtökin ´78, Femínistafélag Háskóla Íslands, No Borders Iceland, Trans Ísland og Tabú er yfirlýstir stuðningsaðilar fundarins.
Skilaboð samstöðufundarins séu að ef samfélag eigi að byggjast á fordómum muni þeirri stefnu ekki verða fylgt. „Rósin er fyrir þá sem eru ósammála okkur,“ segir Gezim en fólk er hvatt til að mæta með rós, sem á að vera tákn ástar á móti hatri og styrkur á móti virðingarleysi.
„Við finnum til með minnihlutahópum sem verða útskúfuð. Við finnum til með jaðarhópum sem hafa lent í líkamlegu ofbeldi í kjölfarið. Við finnum til með þeim sem kvíða því að fara út á götu vegna hörundslitar eða trúarlegrar einkenna,“ segir Gezim en segir að þau finni einnig til með hinni hliðinni; fólki sem sér ekki það góða í í náunganum:
„Það er einmitt ástæðan fyrir því að við munum safnast saman í dag til þess að gleyma því aldrei að við stöndum saman í einu og öllu. Gleymum því ekki að einstaklingurinn sem okkur finnst kannski skrítinn myndi forna lífinu fyrir okkur en við vitum það ekki.“
Gezim segir fundinn í dag fyrst og fremst eiga að vera vitundarvakningu um að við verðum að passa hvaða tilfinningar við berum til þeirra sem við álítum að séum öðruvísi. „Tilgangurinn er ekki að breyta gangi mála í Bandaríkjunum heldur að við lítum okkur nær og tökum virkan þátt í þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni.“
Hann bendir á að tvö mál hafi breytt stjórnmálaum meira en nokkuð annað undanfarin. Loftslagsbreytingamál og vandamál fólks á flótta. „Maður sá fyrir sér nýja tækni í orkumálum, nýjar aðferðir til að ferðast. Við hefðum geta þróað hagkvæmara, réttlátara og hreinna samfélag. Í staðinn fyrir þetta allt kemur Donald Trump. Ekki nóg með að það muni ekki verða neinar framfarir heldur hefur hann lofað að fella úr gildi þær litlu skuldbindingar sem þjóðir heims hafa komið sér saman um að standa við.“