„Fyrsti fundur er yfirleitt rólegur. Við förum yfir málið með sáttasemjara og vinnan verður kortlögð. Ég býst ekki við að það dragi til neinna tíðinda í dag,” segir Ólafur Loftsson formaður FG.
Fyrsti fundur í kjaradeilu Félags grunnskólakennara og Sambands sveitarfélaga hjá Ríkissáttasemjara verður í dag kl. 13.30. Fyrir viku vísaði samninganefnd félags grunnskólakennara deilunni til ríkissáttasemjara.
Ólafur reiknar ekki með að fyrsti fundur verði langur og segir að ef svo yrði kæmi það honum á óvart þar sem hann býst við að eingöngu verði farið yfir stöðuna. Hann bendir hins vegar á að þetta er fyrsti fundur deiluaðila undir stjórn nýs ríkissáttasemjara.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga tók í sama streng og Ólafur. „Við höldum áfram að vinna,“ segir Inga Rún.