Barnapíutæki sjöfalt dýrara á Íslandi

Ljósmynd/Skjáskot af Heimkaup.is.

„Þetta er bara ofurgræðgi,“ segir Gunnar Ólafur Ragnarsson. Í Facebook-færslu sinni bendir hann á um 60 þúsund króna verðmun á Angelcare-barnapíutæki hjá vefverslununum Amazon og Heimkaup.

Hann keypti tækið glænýtt hjá Amazon í Bandaríkjunum á tæpar 11 þúsund  krónur þegar alveg eins tæki kostaði  tæpar 70 þúsund krónur hjá íslensku vefversluninni Heimkaup.

Frétt mbl.is: 20.000 króna munur á Hagkaup og Tesco

Brá í brún

Gunnar Ólafur segir konuna sín hafa nefnt við sig að tilboð væri á Angelcare-tækinu á afsláttardögum hjá Heimkaupum. Hann ákvað að kíkja á Amazon til að kanna verðmuninn og brá í brún þegar hann sá að um 60 þúsund krónum munaði.

„Þetta er sama tæki. Það eru meira að segja íslenskar leiðbeiningar á því,“ segir Gunnar Ólafur, sem blöskrar verðmunurinn. „Maður vill ekki virka eins og einhver nánös en mann langar heldur ekki að kveikja í peningunum sínum. Þegar munar meira en helmingi er þetta bara svo ljótt.“

Yfirleitt helmingi ódýrara

Um 100 manns eru búnir að deila Facebook-færslunni hans. Heimkaup hafa núna lækkað verðið á vörunni um 25%, eða niður í um 52 þúsund krónur.

Gunnar kveðst versla mikið á erlendum vefsíðum og yfirleitt sé varan helmingi ódýrari þar þrátt fyrir sendingarkostnað og tolla. Þannig kosti Angelcare-tækið ekki yfir 20 þúsund krónum þegar allt sé lagt saman.

Vitundarvakning á Íslandi

Hann telur að vitundarvakning sé að verða hér á landi í neytendamálum  en betur má ef duga skal. „Ef maður nennir að leita sér upplýsinga getur maður alltaf fundið eitthvað ódýrara. Það er óþarfi að vera að henda peningunum. Þegar það munar sjöfalt er það svolítið mikið gróft.“

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa.is.
Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa.is. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki hægt að komast neðar

Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa, segir að ákveðið hafi verið að „keyra verðið á þessari vöru alveg niður“ eftir að athygli fyrirtækisins hafi verið vakin á verðmuninum.

„Þetta er hins vegar ein af þeim vörum sem við kaupum af innlendum birgjum (VL Heildverslun) og því einfaldlega ekki hægt að komast neðar,“ segir hann í skriflegu svari til mbl.is.

Þar bætir hann við að innlendir samkeppnisaðilar þeirra séu í „sömu vandræðum“ því þeir séu að selja vöruna á svipuðu verði og þeir.

Of mikill munur

Hann tekur fram að varan kosti 215 pund hjá Amazon í Bretlandi, eða um 35 þúsund krónur. Erfiðara sé að miða við Amazon í Bandaríkjunum, eins og Gunnar gerir, vegna þess að straumurinn á tækinu sé allt annar og því þurfi að kaupa straumbreyta og fleira til þess að fá allt til að virka.

Hann bætir samt við: „Þó svo að það sé gott fyrir neytendur að varan sé í ábyrgð á Íslandi er munurinn einfaldlega of mikill. Við erum að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert