Dagur okkar ástkæra og ylhýra

Verðlaunahafar á síðasta ári. Bubbi Mortens hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir …
Verðlaunahafar á síðasta ári. Bubbi Mortens hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu og Guðjón Friðriksson sagnfræðingur verðlaun Jónasar Hallgrímsonar.

Dagur íslenskrar tungu er í dag, 16. nóvember, á fæðingardegi þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Hann er haldinn hátíðlegur í tuttugasta skipti í ár og af því tilefni verða hin ýmsu íslenskuverðlaun veitt þeim sem þykja leggja einstaka rækt við okkar ástkæra og ylhýra tungumál.

Í Hörpu verður fjölbreytt hátíðardagskrá annars vegar á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins og hins vegar Reykjavíkurborgar í sitt hvorum salnum.

Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar verða veitt við hátíðlega athöfn í Björtuloftum og opnar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, nýja gjaldfrjálsa vefgátt/orðabók á netinu sem nefnist málið.is. Einnig verða veittar sérstakar viðurkenningar fyrir stuðning við íslenska tungu, en þessi hátíðardagskrá er á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá kl. 15-16.

Í fyrra hlaut Guðjón Friðriksson sagnfræðingur verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og Bubbi Morthens hlaut sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu.

Mynd af þjóðskáldinum Jónasi Hallgrímssyni prýðir tíu þúsund króna seðilinn.
Mynd af þjóðskáldinum Jónasi Hallgrímssyni prýðir tíu þúsund króna seðilinn.

 

Íslenskuverðlaun unga fólksins

Þegar þessari dagskrá lýkur verða íslenskuverðlaun unga fólksins í bókmenntaborginni Reykjavík veitt í 10. sinn í Norðurljósasalnum. Verndari verðlaunanna, frú Vigdís Finnbogadóttir, afhendir verðlaunin. Þar taka 57 reykvískir grunnskólanemendur við verðlaunum að þessu sinni, en meðal þeirra eru lestrarhestar, skapandi skrifarar og nemendur sem sýnt hafa góða færni í tjáningu og túlkun á góðum texta.  

Íslenskuverðlaununum er ætlað að auka áhuga grunnskólanema í Reykjavík á íslenskri tungu og hvetja þá til framfara í tjáningu í töluðu og rituðu máli. Alls hafa um 600 reykvísk börn fengið þessi verðlaun frá upphafi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert