„Ég segi við krakkana - hættið að láta bjóða ykkur þennan viðbjóð. Þetta er drasl og ég kalla þetta hjólhýsagarð Internetsins,“ sagði Óli Örn Atlason, uppeldis- og menntunarfræðingur, sem hélt fyrirlestur á morgunverðarfundi samtakanna Náum áttum í morgun þar sem umræðuefnið var netnotkun barna og ungmenna. Fyrirlestur hans bar heitið Get ég treyst á Sjomlatips eða Beautytips?
Tilefni þessara ummæla voru þó ekki þær síður, heldur nokkrar tilteknar íslenskar fréttavefsíður þar sem hlutverk kynjanna eru sett fram á býsna íhaldssaman hátt og ýmsar vafasamar upplýsingar settar fram sem sannleikur eða sem staðfestar fréttir. „Þangað sækja þau fróðleik og það sem þau telja vera sannleik,“ sagði Óli Örn í fyrirlestri sínum.
Óli Örn veitir félagsmiðstöðinni Fönix í Kópavogi forstöðu og hann heldur reglulega fræðslufundi um samskipti á netinu á vegum SAFT. Markmið fræðslunnar er m.a. að hvetja ungmenni til rökhugsunar og hann leggur áherslu á að valdefla stelpur. Hann segir að mörgum vinsælum Instagram töggum sé markvisst beint að stelpum og nefndi í því sambandi #sextagram, #bikinibridge og #chasingperfection þar sem tiltekið útlit eða hegðun er sýnt sem eftirsóknarvert. „Þetta er enn ein leiðin til að segja stelpum hvernig þær eiga að vera til að þóknast strákum,“ sagði Óli Örn.
Hann sagðist hafa orðið þess áskynja að margar stúlkur treystu á Facebookhópinn Beauty Tips og aðra álíka hópa til að fá ýmis ráð. „Það er mikið af alvöru úrræðum þarna og þarna fá stelpur oft stuðning. Reyndar er þarna líka oft staðfesting á því sem þær vilja heyra,“ sagði Óli Örn og sagði það sama eiga við um strákahópinn Sjomlatips á Facebook.
Óli Örn sagðist gera mikið af því að ræða örugga notkun netsins við ungmennin. Að taka tölvur eða netþjóna úr sambandi sé ekki lausn á of mikilli eða óviðeigandi netnotkun unglinga. Miklu máli skipti að til sé vettvangur til að ræða netnotkun ungmenna. „Það er mikilvægt að foreldrar, kennarar og aðrir sem vinna með börnum komi að borðinu,“ sagði Óli Örn.
Náum áttum er fræðslu- og forvarnahópur sem skipuleggur morgunverðarfundi um ýmis mál sem varða forvarnir og velferð barna og ungmenna. Hópinn mynda fulltrúar nokkurra stofnana og félagasamtaka sem vinna að forvörnum, velferð, vernd og mannréttindum barna, meðal þeirra eru Embætti landlæknis, Barnaverndarstofa, Reykjavíkurborg, Heimili og skóli, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Umboðsmaður barna.
Hér má sjá alla fyrirlestrana sem voru á morgunverðarfundinum í dag.