Hluti samskipta um Tetra-kerfi Neyðarlínunnar tvær vikur aftur í tímann hefur verið aðgengileg almenningi á netinu um tíma. Um er að ræða samskipti milli viðbragðsaðila og annarra sem notfæra sér Tetra-kerfið. Meðal þeirra sem það nota er lögreglan, björgunarsveitir, Strætó, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og orkufyrirtæki. Samskipti lögreglunnar verða dulkóðuð strax í dag samkvæmt Neyðarlínunni.
Þegar farið var á sérstakt netsvæði í gegnum svokallað Tor-net fékkst aðgangur að skráasafni sem náði tvær vikur aftur í tímann auk þess sem öll samskipti dagsins í dag hlóðust inn jafn fljótt og þau áttu sér stað. Um er að ræða samskipti í gegnum ákveðinn sendi á höfuðborgarsvæðinu sem einhver einstaklingur hefur hlerað.
Engin dulkóðun hefur verið á Tetra-kerfinu hingað til þar sem það hefur verið svokallað opið kerfi. Einstaklingur með réttan búnað til að hlera samskipti á ákveðin loftnet hefur því getað fylgst með öllu sem þar fer fram.
Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, segir í samtali við mbl.is að vitað hafi verið af þessum veikleika um nokkurn tíma og því hafi verið farið í heildar uppfærslu á öllu Tetra-kerfinu hér á landi. Það var um 250 milljóna fjárfesting að sögn Þórhalls og er búið að heimsækja alla senda á landinu til að uppfæra þá. Segir hann að frá og með deginum í dag verði öll samskipti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu dulkóðuð og í framhaldinu skoðað hvað gert verði við önnur samskipti í kerfinu.
Hann segir hlerun á kerfið vera kolólöglega og í raun mun verra en ef sími sé hleraður þar sem um sé að ræða kerfi viðbragðsaðila. Gerir Þórhallur ráð fyrir að lögreglan muni sjálf skoða rannsókn á þessu máli, enda sé um að ræða samskipti þeirra.