Fjögur apóteksrán á tveimur mánuðum

Maður fór ránshendi í Apóteki Suðurnesja á þriðjudagskvöld.
Maður fór ránshendi í Apóteki Suðurnesja á þriðjudagskvöld.

Grunur leikur á að sami erlendi karlmaðurinn hafi verið að verki í fjórum vopnuðum ránum undanfarna tvo mánuði. Þetta segir Jóhann Karl Þórisson aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Ránin hafa átt sér stað í fjórum mismunandi sveitarfélögum.

„Það er náttúrulega undarlegt að það séu hérna fjögur rán framin með svipaðri aðferð á skömmum tíma,“ segir Jóhann Karl í samtali við mbl.is.

Fyrst í Kópavogi, svo í Reykjavík

Fyrsta ránið átti sér stað þann 26. september, eins og mbl.is greindi frá samdægursMaður sem huldi and­lit sitt kom þar inn vopnaður hníf og ógnaði starfs­fólki, sagði Gunn­ar Hilm­ars­son, aðal­varðstjóri í Kópa­vogi.

Rúmur mánuður leið þar til næst var framið rán í apóteki hér á landi, en það var þann 5. nóvember í Suðurveri í Reykjavík. Þar ógnaði grímu­klædd­ur maður starfs­fólki með hníf, en að sögn lög­reglu hafði maður­inn á brott með sér hvort tveggja lyf og pen­inga.

Þá var hann sagður hafa verið í annarlegu ástandi og taldi lögregla að hann hefði komist í burtu fótgangandi.

Frá vettvangi ránsins í Ólafsvík.
Frá vettvangi ránsins í Ólafsvík. mbl.is/Alfons Finnsson

Stöðvuð á Snæfellsnesvegi

Daginn eftir greindi mbl.is frá því að rannsókn málsins væri í járnum. Lögregla hafði þá haft einn und­ir grun en sá maður reynd­ist ekki vera sá seki.

Aðeins fjórum dögum eftir ránið í Suðurveri, eða að kvöldi níunda nóvember, var par handtekið á flótta eftir rán í Apóteki Ólafsvíkur. Var bifreið parsins stöðvuð á Snæfellsnesvegi skammt frá Haffjarðará, en lög­reglu­menn á Akra­nesi höfðu verið kallaðir út til að keyra á móti par­inu og stöðva það, sem þeir gerðu. Konan var þá sögð íslensk.

Handteknir á Suðurnesjum

Ólaf­ur Guðmunds­son, yf­ir­lög­regluþjónn lög­regl­unn­ar á Vest­ur­landi, sagði þá í samtali við mbl.is að maðurinn hefði ógnað starfs­fólki apó­teks­ins með hníf og náð að taka á brott með sér lyf.

Tveir einstaklingar voru loks handteknir á þriðjudagskvöld eftir vopnað rán í Apóteki Suðurnesja við Hringbraut í Keflavík. Voru þeir enn í haldi síðast þegar mbl.is gat fengið upplýsingar um málavöxtu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert