Forsetakosningarnar í Bandaríkjunum munu væntanlega ekki hafa mikil áhrif á veru Bandaríkjanna í NATO eða marka enda sambandsins. Aftur á móti gætu orðið nokkrar áherslubreytingar sem snúast helst um aukna þátttöku annarra landa en Bandaríkjanna og frekari fjárframlög í samstarfið. Þetta segir Magnus Nordenman, deildarstjóri Transatlantic Security Initiative hjá Atlantic Council í Washington.
Nordenman var einn fyrirlesara á fundi Varðbergs, NEXUS - rannsóknarvettvangs á sviði öryggis- og varnarmála og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Þjóðminjasafninu í dag.
Hann sagði áhersluatriði Trump í tengslum við NATO væntanlega ráðast mikið af því hvaða fólk hann veldi sem ráðherra, en aðrar NATO-þjóðir megi búast við því að óskað verði eftir því að byrðunum af samstarfinu verði dreift meira en gert er í dag.
Þá sagði hann nauðsynlegt að NATO-þjóðir væru duglegri að koma sér á framfæri í Washington, en hann taldi að sérfræðingar í málefnum NATO væru aðeins um 50 talsins í höfuðborg Bandaríkjanna. Því væri þekking í stjórnkerfinu ytra ekkert rosalega mikil þrátt fyrir mikilvægi samstarfsins. Sagði hann samstarfið því krefjast aukinna samskipta og heimsókna.
Nordenman sagði líklegt að meira myndi sjást til Bandaríkjanna í Evrópu á næstunni, en það væri væntanlega í formi tímabundinnar viðveru í stað langtímaveru. Þó mætti gera ráð fyrir að bandarísk yfirvöld myndu í auknum mæli sækjast eftir staðbundinni samvinnu. Nefndi hann t.d. að Noregur og Ísland myndu koma meira að eftirlitsflugi á Norður-Atlantshafi. Slíkt samstarf væri klárlega eitthvað sem Bandaríkin væru áhugasöm um. Benti hann á að svipað fyrirkomulag væri í málefnum Bandaríkjanna við Svartahaf og í Eystrasaltslöndunum.