Þriðjungur ekki læs við útskrift

mbl.is/Árni

Einungis 64% nemenda nær lágmarksviðmiði í lestri við útskrift úr grunnskóla. 29% nemenda ná almennu viðmiði og aðeins 8% nemenda ná metnaðarfullu viðmiði. Þetta er meðal þess sem kemur fram í lesfimiprófum Menntamálastofnunar og kynnt voru í gær.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem bárust frá framhaldsskólunum telja framhaldsskólakennarar að nemendur á bóknámsbrautum þurfi að lágmarki að geta lesið um 180 orð á mínútu til að geta komist yfir það námsefni sem ætlast er til af þeim.

„Mikilvægt er að fylgjast vel með lesfimi allra nemenda og tryggja að henni sé viðhaldið með markvissri þjálfun. Sérstaklega þarf að hyggja að lestri nemenda sem eru nærri lágmarks viðmiðum því þeir eiga oftast í vanda tengdum lestrarferlinu og viðbúið er að framhaldsskóli þurfi að halda áfram lestrarþjálfun með þeim. Mikilvægt er að þeir fái markvissa lestrarþjálfun til að geta nýtt sér lestur í daglegu lífi,“ segir í frétt á vef Menntastofnunar en Gylfi Jón Gylfason, sviðsstjóri matssviðs, afhenti Illuga Gunnarssyni mennta- og menningarmálaráðherra viðmiðin í Flataskóla í gær.

Ráðherra sagði við tilefnið: „Maður er aldrei búinn að læra að lesa. Maður er að læra að lesa allt sitt líf.“ 

Viðmið um læsi barna eru verkfæri fyrir nemendur, kennara og foreldra til að fylgjast með framförum, styðja við læsi og auka þannig líkurnar á því að sem flestir geti aflað sér menntunar í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í nútímasamfélagi. 

Markmiðið með setningu lesfimiviðmiða, ásamt væntanlegum viðmiðum um lesskilning og ritun, er að stuðla að bættu læsi barna og ungmenna í íslensku skólakerfi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert