Ljóst að Rússar voru með „krísu-handbók“ NATO

NATO herskip í Reykjavíkurhöfn fyrr á þessu ári.
NATO herskip í Reykjavíkurhöfn fyrr á þessu ári. Árni Sæberg

Undanfarin ár hafa verið miklar breytingar í tengslum við öryggismál í heiminum og hann er orðinn ófyrirsjáanlegri og hættulegri. Staðan á Norður-Atlantshafi hefur verið lítið í umræðunni undanfarin fjögur ár hjá NATO, en það er líklega að breytast, meðal annars með aukinni ógn frá Rússlandi. Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Simon Hardern, flotaforingja við herstjórn NATO í Brunssum í Hollandi, á fundi Varðbergs, NEXUS og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í Þjóðminjasafninu í dag.

Hardern ræddi almennt um stöðu NATO og helstu málefni sambandsins í dag, auk þess að fara yfir breytta stöðu í varnarmálum í Evrópu eftir hernað Rússa á Krímskaganum.

Sagði hann Norður-Atlantshafssvæðið vera eitt af þremur áherslusvæðum Rússa til viðbótar við Krím og Kalíngrad. Þrátt fyrir það hefði Norður-Atlantshafssvæðið fengið mikla athygli hjá NATO enn sem komið er. Þó væri horft til þess að byrja frekari skoðun á því að Ísland og Noregur væru eitt svæði í bókum NATO, ekki ólíkt því sem væri gert í málefnum Póllands og Eystrasaltslöndunum.

Ítrekaði hann mikilvægi staðsetningar Íslands og veru herafla hér á landi. Sagði hann stóru spurninguna vera hvort NATO hefði mannafla til að verja þetta svæði, en eins og staðan væri í dag gæti sambandi það ekki. Framtíðin þyrfti að leiða það í ljós.

Þá fór hann yfir hvernig Rússland hefði hagað sér í hernaðinum á Krímskaga og að þeir hefðu þar greinilega vitað nákvæmlega hvernig NATO virkaði og hugsaði. Þannig hafi virst ljóst að þeir væru með „krísu-handbók“ sambandsins og vitað nákvæmlega hvenær þeir væru að fara yfir strikið. Þeir hafi alltaf stoppað áður en þeir fóru yfir þá línu og þannig komið í veg fyrir sterkari viðbrögð NATO.

Stóra málið er að sögn Hardern að fjárfesta þurfi í varnar- og öryggismálum til að tryggja stöðugleika í Evrópu til langs tíma, en það geti verið erfitt vegna mismunandi skoðana landa í sambandinu um hvað eigi að vera helstu áherslurnar.

Nefndi hann að Miðjarðarhafslöndin hafi sérstaklega áhuga á flóttamannamálum, meðan aðrir horfi til austurs og svo sé Norður-Atlantshafið. Nefndi hann að innan NATO hefðu menn jafnvel rætt það að fjöldi flóttamanna gæti farið í um 150-200 milljónir í framtíðinni, en í lok síðasta árs voru um 65 milljónir manna á flótta um allan heim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert