Veiðimenn ósáttir við ráðherra

Dúi segir menn leita niður í dali og kjarr við …
Dúi segir menn leita niður í dali og kjarr við þessar aðstæður. mbl.is/Golli

Rjúpnaveiðimenn sem hyggja á veiðar um helgina gætu borið lítið úr býtum. Helgin er sú fjórða og síðasta í ár þar sem veiðar á rjúpum eru leyfðar, en síðustu þrjár helgar hefur veðrið ekki leikið við veiðimenn, svo vægt sé til orða tekið.

„Norðanmönnum eru nokkrar skorður settar,“ segir Dúi Landmark, formaður Skotvís, í samtali við mbl.is um veðurspá helgarinnar, en búist er við norðan 10 til 18 metrum á sekúndu og éljum fyrir norðan og austan á morgun.

Veðurvefur mbl.is

„Það er búið að vera norðanátt á landinu og menn eru ekki að fara hátt núna, það er kannski meira um að þeir leiti niður í dali og kjarr þegar veður leyfir,“ segir Dúi.

Ráðherra hafi virt að vettugi tillögur Umhverfisstofnunar

„Það kemur berlega í ljós núna, að ef umhverfisráðherra hefði tekið til greina þær tillögur sem Umhverfisstofnun lagði fram, ásamt okkur, um sex helga veiðitímabil, þá hefði miklu meira svigrúm gefist til veiða.“

Dúi segir að hætt sé við því að álag aukist á veiðislóðir við þessar aðstæður.

„Þegar menn geta ekki verið uppi og leita niður í dalina, þá er hætt við því að það myndist kraðak á þessum fáu dögum.“ Því geti fylgt aukin hætta á slysum.

Spurður hvaða ástæðu hann telji vera fyrir þessari ákvörðun ráðherrans, segir hann:

„Ég held að það sé nú vegna þess að Náttúrufræðistofnun, sem hefur þó ekkert með veiðistjórnun að gera, lagði til að fyrirkomulagið yrði óbreytt.

Samkvæmt lögum þá er það Umhverfisstofnun sem fer með þennan málaflokk og því höfum við gert athugasemdir við það, að ráðherra virði að vettugi tillögur þeirrar stofnunar sem hefur sannarlega með veiðistjórnun að gera,“ segir Dúi og bætir við að hlutverk Náttúrufræðistofnunar sé allt annað.

Segir ráðherra hafa farið auðveldu leiðina

„Ég held að hún [Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra] hafi kannski bara farið auðveldu leiðina. Hún hafi ekki kosið að horfa á rökin, enda margoft búið að sýna fram á það að hinn almenni veiðimaður fer þetta, milli þrjá og fjóra daga til veiða, alveg sama þótt veiðitímabilið sé níu dagar eða 47.“

Telurðu mögulegt að fá þessu breytt á næsta ári?

„Við vonum innilega að sá eða sú, sem sest í stól umhverfisráðherra að lokinni stjórnarmyndun, beri gæfu til þess að hafa öryggismál veiðimanna í forgangi, og fari eftir þeim tillögum sem til þess bær stofnun setur fram, í stað þess að taka geðþóttaákvarðanir eins og svo oft hefur verið.“

Vonast er til að næsti ráðherra fari að tillögum Umhverfisstofnunar.
Vonast er til að næsti ráðherra fari að tillögum Umhverfisstofnunar. mbl.is/Golli
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert