Lögreglan á Suðurnesjum aðstoðaði erlendan mann í nótt sem hugðist ganga heim til sín á Höfn í Hornafirði eftir að hafa misst af flugi í Keflavík. Maðurinn var kominn um 10-15 kílómetra fram hjá Höfnum á Reykjanesi þangað sem Google Maps hafði vísað honum þegar lögreglan tók hann upp.
Maðurinn var orðinn kaldur og hrakinn þegar lögreglan kom honum til aðstoðar, að því er kemur fram í færslu á Facebook-síðu lögreglustjórans á Suðurnesjum. Þegar á lögreglustöðina var komið sagði maðurinn að hann hefði ákveðið að ganga heim til sín til Hafnar í Hornafirði.
Hann sagðist hafa slegið inn í Google Maps hvert hann ætti að fara og sýndi forritið honum að stysta leiðin væri að ganga að Höfnum og að Reykjanesvita og svo með suðurströndinni. Samkvæmt Google Maps hefði ferðin ekki tekið hann „nema“ fjóra daga.
„Eftir að hann hafði náð hlýju í kroppinn sofnaði hann vært og sefur eins og ungbarn hér hjá okkur. Við reynum svo að koma honum í rútu austur á morgun,“ segir í færslu lögreglunnar.