Flóknar fléttur Glitnis

Fjöldi dómsmála hefur verið höfðaður gegn fyrrverandi stjórnendum Glitnis banka …
Fjöldi dómsmála hefur verið höfðaður gegn fyrrverandi stjórnendum Glitnis banka vegna aðgerða þeirra áður en bankinn féll. Friðrik Tryggvason

Þrátt fyr­ir að skulda yfir 13 millj­arða og eiga aðeins eina millj­ón hef­ur fjár­fest­inga­fé­lagið Gnúp­ur ekki enn verið lýst gjaldþrota í þau tæp­lega níu ár síðan fé­lagið fór í gegn­um það sem kallað var fjár­hags­leg end­ur­skipu­lagn­ing í janú­ar 2008. Við þá vinnu samþykktu helstu stjórn­end­ur fé­lags­ins að gang­ast í 1,6 millj­arða ábyrgð fyr­ir fé­lagið, sem þó var vitað að væri ógjald­fært með öllu, en stjórn­end­um ber ekki að ábyrgj­ast per­sónu­lega skuld­ir einka­hluta­fé­laga. Síðan þá hef­ur verið hljótt um fé­lagið en það þó nokkr­um sinn­um skotið upp koll­in­um í tengsl­um við dóms­mál sem kennd eru við hrunið, meðal ann­ars Stím-, BK-44- og Aur­um-mál­inu. Öll eiga þau það sam­eig­in­legt að tengj­ast Glitni banka. Mbl.is skoðar hér þess­ar teng­ing­ar ólíkra mála sem hafa fljótt á litið sam­eig­in­leg­an skurðpunkt í Glitni, en hafa tals­vert meiri teng­ing­ar þegar þau eru skoðuð nán­ar.

Flaug hátt en brot­lenti fljótt

Fé­lagið var stofnað árið 2006 og var eitt af stærri eign­ar­halds­fé­lög­um lands­ins á sín­um tíma, en það var meðal stærstu hlut­hafa í Kaupþing banka og FL group (og þar með Glitni banka), auk þess að eiga bréf í Bakka­vör og beint í Glitni. Í lok árs 2006 námu eign­ir fé­lags­ins um 57 millj­örðum króna.

Það voru viðskipta­fé­lag­arn­ir Magnús Krist­ins­son og Krist­inn Björns­son sem stóðu á bak við fé­lagið ásamt Þórði Má Jó­hann­es­syni, sem var for­stjóri þess. Átti Magnús ásamt eig­in­konu sinni og Birki Krist­ins­syni, bróður sín­um, 46,5% í Gnúpi og Krist­inn ásamt fjöl­skyldu sinni 46,4%. Þá átti Þórður 7,1%. 

Gnúp­ur var strax komið í al­var­leg vanda­mál í lok árs 2007 vegna lækk­un­ar hluta­bréfa­verðs á ís­lenska markaðinum og mik­ill­ar skuld­setn­ing­ar. Í des­em­ber seldi fé­lagið alla hluti sína í Kaupþingi til eign­ar­halds­fé­lags­ins Gift­ar, sem fékk til þess 20 millj­arða lán hjá Kaupþingi, til að bæta lausa­fjár­stöðu sína. Það dugði þó ekki til á móti lækk­andi hluta­bréfa­verði hér á landi og í janú­ar var gert sam­komu­lag milli lán­ar­drottna Gnúps og stjórn­enda þess varðandi af­drif fé­lags­ins.

Mátti ekki fara í gjaldþrot og stjórn­ar­menn í ábyrgð

Í þessu sam­komu­lagi, sem mbl.is hef­ur und­ir hönd­um, er gengið að öll­um trygg­ing­um Gnúps, öll­um skipta- og gjald­miðlasamn­ing­um fé­lags­ins lokað, reiðufé notað til inn­á­greiðslu á skuld­um, en aðrar skuld­ir felld­ar niður. Fé­lagið hafði sam­tals tapað 11,8 millj­örðum árið áður og var upp­safnað óinn­leyst tap 26,1 millj­arður. Þá er það margoft ít­rekað í sam­komu­lag­inu að aðilar þess megi ekki fara fram á gjaldþrot á því, „þrátt fyr­ir að eig­in­fjárstaða fé­lags­ins sé eða verði nei­kvæð.“

Mynd/​mbl.is

Eins og ljóst má vera þegar samn­ing­ar sem þess­ir eru gerðir stend­ur fé­lagið illa þegar þarna er komið og  er í raun ógjald­fært. Þrátt fyr­ir það er að finna í sam­komu­lag­inu klausu um ábyrgð stjórn­enda og eig­enda fé­lags­ins. „Jafn­framt ábyrgj­ast Krist­inn Björns­son, Magnús Krist­ins­son og Þórður Már Jó­hann­es­son gagn­vart Glitni að til staðar í fé­lag­inu séu eign­ir sem eru að verðmæti að minnsta kosti 1.600.000.000 kr.“ Ábyrgð Þórðar er þó sögð hlut­falls­leg miðað við eign­ar­hlut hans í fé­lag­inu, en ábyrgð hinna er in solidum. Þá er tekið fram að Lands­bank­inn og Glitn­ir muni falla frá mögu­leg­um skaðabót­um á hend­ur stjórn­end­um fé­lags­ins.

Einnig er tekið fram að hlut­haf­arn­ir megi ekki af­sala sér hluta­fé í fé­lag­inu. Á þess­um tíma var Gnúp­ur stór hlut­hafi í FL Group sem var svo stærsti ein­staki eig­andi Glitn­is. Með gjaldþroti hefði því fjöldi bréfa í FL Group getað farið á markað, en sam­kvæmt grunn­regl­um hag­fræði veld­ur mikið fram­boð því jafn­an að verð tek­ur að lækka. Glitn­ir hafði þó öll yf­ir­ráð yfir fé­lag­inu og stýrði því eft­ir end­ur­skipu­lagn­ing­una.

Með því að banna hlut­höf­un­um að af­sala sér hluta­fénu, en um leið banna gjaldþrot fé­lags­ins komst Glitn­ir því hjá því að mik­ill fjöldi bréfa í öðru stóru eign­ar­halds­fé­lagi, FL Group færi á markað sem hefði getað valdið snjó­bolta­áhrif­um á markaðnum. Eða eins og seg­ir í rann­sókn­ar­skýrslu Alþing­is: „Ef bank­arn­ir gengju að fé­lag­inu [Gnúpi] og seldu eign­ir þess fyr­ir skuld­um þýddi það að hluta­bréf bank­anna og FL Group lækkuðu veru­lega í verði.” Þá stjórnaði Glitn­ir þess­um eign­ar­hlut þrátt fyr­ir að í papp­ír­um væri hann enn skráður á fyrri hlut­hafa sem ekk­ert gátu gert til að stjórna fé­lag­inu. Þetta get­ur til dæm­is skipt máli þegar um háar lán­veit­ing­ar til tengdra aðila er að ræða, sem varð niðurstaðan með Gnúp og Glitni.

Dótt­ur­fé­lagið Stapi stofnað

Í fram­haldi af samn­ingn­um var svo dótt­ur­fé­lagið Stapi stofnað og þangað flutt­ar verðlaus­ar eign­ir Gnúps og skuld­bind­ing­ar tengd­ar þeim eign­um. Um er að ræða eign­ir Gnúps í Mosaic Fashi­on og Landic Property ásamt skuld upp á á ann­an tug millj­arða. Stærsti hlut­hafi í báðum fé­lög­um var fjár­fest­inga­fé­lagið Baug­ur. Fjár­fest­inga­fé­lagið Fons hafði selt bréf sín í Landic fyr­ir um 10 millj­arða til Glitn­is sem svo fóru áfram í Stapa.

Í rann­sókn­ar­skýrslu Alþing­is kom fram að skuld­ir Stapa hefðu verið 17 millj­arðar, en við upp­gjör bús­ins árið 2013 kom fram að skuld­irn­ar væru 30 millj­arðar. Eng­ar eign­ir fund­ust upp í skuld­irn­ar, en Mosaic hafði farið í gjaldþrot 2009 og aðeins 1,27% feng­ist upp í kröf­ur fé­lags­ins. Farið var fram á gjaldþrot Landic árið 2009, en þá skuldaði fé­lagið 120 millj­arða. Ein­hverj­ar eign­ir eru þó í því fé­lagi.

Reynt að girða fyr­ir verðlækk­un með BK-44 og Stím-viðskipt­um

Í nóv­em­ber árið 2007, þegar óveðurs­ský­in voru byrjuð að hlaðast upp í kring­um Gnúp hóf­ust önn­ur viðskipti sem hafa fengið mikla um­fjöll­un eft­ir hrun, Stím-viðskipt­in svo­kölluðu. Þar lánaði Glitn­ir 20 millj­arða sem enduðu hjá fé­lag­inu Stími sem keypti stóra hluti í bæði Glitni og FL Group. Reynd­ar lánaði einnig fé­lagið Fons, í gegn­um dótt­ur­fé­lag sitt FS38, tals­verðar upp­hæðir í þau viðskipti.

Þenn­an sama mánuð keypti Glitn­ir hluta­bréf í bank­an­um sjálf­um af Gnúpi og seldi þau áfram til Birk­is Krist­ins­son­ar, en eins og fyrr seg­ir er hann bróðir Magnús­ar, sem var ann­ar aðal­eig­andi Gnúps á þess­um tíma. Þessi viðskipti eru grunn­ur­inn í BK-44-mál­inu svo­kallaða, en Birk­ir var sak­felld­ur fyr­ir sinn hluta máls­ins í Hæsta­rétti.

Eins og fram hef­ur komið í dóm­um í Stím- og BK-44-mál­un­um mis­notuðu starfs­menn bank­ans aðstöðu sína til lán­veit­inga í mál­un­um. Í bæði skipt­in lánaði bank­inn einka­hluta­fé­lög­um til stórra kaupa í bank­an­um sjálf­um og kom þannig í veg fyr­ir að bréf­in færu á markað og or­sökuðu þannig verðlækk­un, ekki ósvipað og í til­viki Gnúps. Mun­ur­inn þar á er þó að í til­felli Gnúps átti fé­lagið í Glitni fyr­ir. Til­gang­ur­inn virðist þó alltaf vera að halda við verð bréfa Glitn­is og FL Group sem var stærsti eig­andi í Glitni, auk þess að losa fyrr­nefnd bréf af veltu­bók Glitn­is.

Vildu selja Aur­um til tveggja stór­skuldugra fé­laga

Milli Gnúps ann­ars veg­ar og Stíms hins veg­ar er svo teng­ing yfir í þriðja málið, en það er nú til meðferðar dóm­ara eft­ir aðalmeðferð í síðasta mánuði. Það er Aur­um-málið svo­kallaða. Í því máli er deilt um lán­veit­ing­ar Glitn­is til fé­lags­ins FS38 til kaupa á bréf­um í skart­gripa­keðjunni Aur­um. Bréf­in voru í eigu móðufé­lags FS38, Fons. Auk þess fóru 2 millj­arðar til Pálma Har­alds­son­ar, eig­anda Fons og þaðan einn millj­arður áfram á per­sónu­leg­an reikn­ing Jóns Ásgeirs Jó­hann­es­son­ar fjár­fest­is sem með því greiddi upp yf­ir­drátt sinn í bank­an­um.

Aur­um-viðskipt­in og aðdrag­andi þeirra áttu sér stað yfir stór­an hluta árs­ins 2008, en um mitt ár kom það þó tvisvar til umræðu inn­an Glitn­is að not­ast við annaðhvort Gnúp eða dótt­ur­fé­lagið Stapa til að kaupa Aur­um-bréf­in af Fons. Á þess­um tíma voru bæði Gnúp­ur og Stapi stór­skuldug og Gnúp­ur ný­bú­inn að fara í gegn­um þvotta­vél­ina eft­ir að hafa verið ógjald­fært. Var eigið fé fé­lags­ins mjög nei­kvætt. Það vek­ur því spurn­ing­ar um hvernig það hafi komið til að starfs­menn Baugs og Glitn­is hafi talið það raun­hæft að lána slík­um fé­lög­um millj­arða til að fara í áhættu­söm hluta­bréfaviðskipti. Bæði Magnús og Þórður Már sögðu í sam­tali við mbl.is að öll stjórn Stapa og Gnúps á þess­um tíma hefðu verið á hendi Glitn­is.

Á þess­um tíma­punkti hafði Glitn­ir komið Stapa yfir í eigu bóka­sal­ans Tóm­as­ar Her­manns­son­ar. Sam­kvæmt frétt Vís­is frá ár­inu 2010 virðist hann þó hafa gert sér grein fyr­ir því að í fé­lag­inu væru verðlitl­ar eða verðlaus­ar eign­ir en skuld­ir sem voru í árs­lok 2008 17 millj­arðar. Sam­kvæmt árs­reikn­ingi fyr­ir árið 2008 er Gnúp­ur aft­ur á móti enn þarna skráður á fyrri eig­end­ur, þótt fé­lagið væri und­ir stjórn Glitn­is.

Stím og Aur­um tengd sam­an og ruslak­ist­an Gnúp­ur

Við aðalmeðferð Aur­um-máls­ins voru svo sýnd­ir póst­ar meðal ann­ars frá Pálma í Fons til Jóns Ásgeirs og Lárus­ar Weld­ing, banka­stjóra Glitn­is, þar sem Pálmi sagði ósann­gjarnt að hann tæki einn á sig „FS38 æv­in­týrið“ og vís­ar þar vænt­an­lega til um tveggja millj­arða taps sem hann varð fyr­ir af Stím-viðskipt­un­um. Í öðrum pósti seg­ir Jón Ásgeir við sam­starfs­mann sinn að með Aur­um-mál­inu sé mál Pálma leyst án þess að hann tapi, en 2,2 millj­arðar áttu að renna til hans. Spurði sak­sókn­ari sér­stak­lega hvort þarna væri teng­ing milli Stím- og Aur­um-máls­ins, en Jón Ásgeir sagðist ekki þekkja það.

Það er þó ekki bara Gnúp­ur og Glitn­ir sem tengja sam­an þessi fyrr­greindu mál, því Gnúp­ur virðist stund­um eiga að enda sem eins kon­ar ruslak­ista fyr­ir bréf sem voru í eigu Fons. Þannig fóru Landic bréf Fons inn í fé­lagið og horft var til þess að koma Aur­um-bréf­un­um þangað. Sam­kvæmt gögn­um Aur­um-máls­ins virðist Jón Ásgeir hafa verið tals­vert viðriðinn mál­efni Fons og fékk meðal ann­ars senda trygg­ing­ar­stöðu fé­lags­ins frá Glitni, jafn­vel þótt Pálmi hafi sagt fyr­ir dómi að það hafi ekki verið að sinni beiðni.

Jón Ásgeir sem skugga­stjórn­andi

Í Aur­um-mál­inu er Jón Ásgeir ákærður fyr­ir hlut­deild í umboðssvik­um og þótt þetta sé eina málið sem hann er ákærður í af héraðssak­sókn­ara kem­ur hann til tals í öðrum mál­um eins og Stím-mál­inu. Meðal ann­ars virðist hann ganga nokkuð hart eft­ir því að það mál gangi í gegn, en starfsmaður Glitn­is sagði í sím­tali sem lagt var fyr­ir dóm­stóla að Jón Ásgeir væri „á djöfla­mergn­um“.

Þá er minnst á af­skipti Jóns Ásgeirs af ákvörðunum Glitn­is gagn­vart fé­lög­um sem hann átti hlut í í rann­sókn­ar­skýrslu Alþing­is. Þar eru rifjuð upp sam­skipti milli hans og fram­kvæmda­stjóra Glitn­is eft­ir að Glitn­ir ákveður að senda Landic Property bréf um aðgerðir bank­ans vegna slæmr­ar stöðu Landic.

Svar kom fyr­ir hönd Landic frá Jóni Ásgeiri Jó­hann­es­syni sem hófst á orðunum: „Sæll Magnús. Sem aðal­eig­andi Stoða sem er stærsti hlut­hafi í Glitni lang­ar mig að vita hvernig svona bréf á að þjóna hags­mun­um bank­ans.“ Í tölvu­bréf­inu setti Jón Ásgeir fram nokkr­ar spurn­ing­ar um málið til Magnús­ar. Sú síðasta var eft­ir­far­andi „Gera stjórn­end­ur sér grein fyr­ir því að Stoðir aðal­eig­andi Landic er jafn­framt með leyfi FME að fara með ráðandi eign­ar­hlut í Glitni hvernig held­ur að þetta bréf líti út frá því sjón­ar­miði?“ Ekki er annað að sjá en að Jón Ásgeir hafi talið sig bær­an um að koma fram bæði af hálfu stjórn­ar FL og Baugs. Í því ljósi verður ekki annað séð en fé­lög­in hafi verið tengd í þeirri merk­ingu sem hér er miðað við. Bréfið ber einnig vitni því umboði sem full­trú­ar stærstu hlut­hafa bank­ans, sem ekki sátu í bankaráði, töldu sig hafa til að hlutast til um dag­leg­an rekst­ur bank­ans.

Um þetta er meðal ann­ars deilt í Aur­um-mál­inu, þ.e. hvort Jón Ásgeir hafi verið einskon­ar skugga­stjórn­andi, sem stærsti eig­andi FL Group í gegn­um Baug og þar með stærsti ein­staki eig­andi Glitn­is. Nefndi verj­andi Jóns Ásgeirs það meðal ann­ars í mál­flutn­ings­ræðu sinni: „Því er mót­mælt. En líka bent á að það er ekki refsi­vert að vera það sem kallað er skugga­stjórn­andi á Íslandi.”

Tals­vert fleiri lán­veit­ing­ar vegna kaupa á bréf­um í Glitni

Til viðbót­ar við þau mál sem nefnd hafa verið hér að fram­an var svo fyrr á þessu ári ákært í svo­kölluðu markaðsmis­notk­un­ar­máli Glitn­is. Þar ákær­ir sak­sókn­ari fyr­ir meint brot starfs­manna Glitn­is við að halda verði bréfa bank­ans uppi. Er það meðal ann­ars gert með því að kaupa mikið magn bréfa á markaði og selja þau svo áfram til fé­laga utan markaðs þar sem kaup­in voru að fullu fjár­mögnuð af Glitni sjálf­um.

Um er að ræða lán og kaup sem einka­hluta­fé­lög 14 starfs­manna bank­ans fengu í maí árið 2008. Frá des­em­ber 2007 til fe­brú­ar 2008 hafði bank­inn áður lánað hinum ýmsu eign­ar­halds­fé­lög­um yfir 20 millj­arða til að kaupa bréf í bank­an­um, en á þess­um tíma fóru hluta­bréf hans sí­lækk­andi. Aðalmeðferð í því máli hef­ur ekki enn farið fram.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert