Fordæmisgildið takmarkað

Gestur Jónsson.
Gestur Jónsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður segir varasamt að draga þá ályktun af nýföllnum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu að refsimeðferð í skattamálum á Íslandi sé í lagi. Í dómnum var ekki fallist á að Noregur hefði brotið gegn mannréttindum tveggja manna sem refsað hafði verið tvisvar vegna sama atviks, annars vegar hjá skattyfirvöldum með sektargreislu en jafnframt af dómstóli með fangelsisrefsingu.

„Því hefur verið haldið fram í fjölmiðlum að túlka megi dóminn á þann veg að öll skattamál á Íslandi séu nú í lagi,“ segir Gestur. „Ég er þessu ósammála. Í því tilviki sem um ræðir í Noregi var málsmeðferðin fyrir dómstólnum annars vegar og stjórnvaldinu hins vegar samhliða, þ.e. á sama tíma og tengd eftir því sem fram kemur í dómnum. Af þeirri ástæðu taldist þetta ekki brot.“

Í íslensku máli sem nú bíður dóms hjá mannréttindadómstólnum (máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar o.fl. gegn Íslandi) eru atvikin allt önnur að sögn Gests. „Í því máli hófst fyrri refsimeðferðin hjá stjórnvöldum árið 2003 og lauk með ákvörðun Yfirskattanefndar haustið 2007. Seinni refsimeðferðin, fyrir dómstólum, hófst með ákæru sem gefin var út 18. desember 2008. Þeirri málsmeðferð lauk með refsidómi Hæstaréttar í febrúar 2013. Mér finnst augljóst að norski dómurinn um samhliða málsmeðferð gefi ekki ástæðu til ályktunar um að niðurstaðan verði hin sama í máli Jóns Ásgeirs. Þvert á móti. Ég þekki nokkur þeirra skattamála sem nú bíða afgreiðslu hjá íslenskum dómstólum og hef miklar efasemdir um að norski dómurinn gefi vísbendingu um að málsmeðferðin standist í þeim málum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert