Hópur hælisleitenda til landsins í gær

Hælisleitendur er nú á ný fluttir inn í móttökumiðstöðina í …
Hælisleitendur er nú á ný fluttir inn í móttökumiðstöðina í Bæjarhrauni. mbl.is/Styrmir Kári

Um tuttugu manns komu í gær, sunnudag, til landsins með flugi og óskuðu hér eftir hæli. Hópurinn var fluttur í móttökumiðstöð fyrir hælisleitendur í Bæjarhrauni í Hafnarfirði sem hefur nú að hluta verið tekin í notkun að nýju eftir að veggjalús kom þar upp í síðasta mánuði.

Margar helgar hefur tvöfaldur þessi fjöldi komið til landsins. Í fyrstu viku nóvembermánaðar voru um­sókn­ir um alþjóðlega vernd tæp­lega 70 tals­ins. Sprenging varð í hælisumsóknum í haust.

Fjöldi hælisleitenda í nóvember er nú kominn yfir 200. Bú­setu­úr­ræði Útlend­inga­stofn­un­ar eru nú öll full­nýtt. Um 200 hæl­is­leit­end­ur dvelja því t.d. á hót­el­um þar til þeir fá úrlausn sinna mála hér á landi.

Á næstunni munu svo hælisleitendur flytja inn í Herkastalann í miðbæ Reykjavíkur sem Útlendingastofnun hefur tekið á leigu. Unnið er að því að út­vega starfs­leyfi og að gera hús­næðið klárt. Rétt tæplega hundrað pláss fyrir hælisleitendur verða í húsnæðinu samkvæmt upplýsingum sem mbl.is fékk frá Útlendingastofnun.

Árangursrík söfnun

Nokkur umræða hefur verið um aðbúnað hælisleitenda á Skeggjagötu í Reykjavík en þar dvelja um 30 manns. Útlendingastofnun útvegar hverjum hælisleitanda kassa með ýmsum húsbúnaði, s.s. disk, glasi, hnífapari og potti, en að öðru leyti var húsbúnaður af skornum skammti. Hópur fólks, sem Sema Erla Serdar fór m.a. fyrir, hóf því söfnun á Facebook í síðustu viku. Góður árangur varð af söfnuninni. Fatnaður, skór og margvíslegur húsbúnaður var meðal þess sem safnaðist og þá var hælisleitendum boðið upp á klippingu um helgina. 

Útlendingastofnun fagnar framtaki forsvarsmanna söfnunarinnar og ætlar að eiga fund með þeim fljótlega. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert