Maður sem höfðaði mál gegn Happdrætti Háskóla Íslands vegna vinnings sem kom upp á miða hans árið 2013 en þar sem ekki var innistæða á kreditkorti hans þegar HHÍ reyndi að skuldfæra greiðsluna, tapaði málinu fyrir héraðsdómi. Um 10 milljóna króna vinning var að ræða. Dómur féll í Héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag og var manninum gert að greiða hálfa milljón króna í málskostnað.
Maðurinn keypti í ágúst 2011 trompmiða á vef HHÍ og gaf þar umbeðnar upplýsingar, meðal annars upplýsingar um greiðslukortanúmer, netfang og símanúmer. Þá var þess getið í skilmálum HHÍ að miðinn verði „gildur frá og með næsta útdrætti og öllum útdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum er ekki sagt upp af þinni hálfu og greiðsla berst til HHÍ fyrir viðkomandi úrdrátt“. Samið var um að greiðslukort stefnanda yrði skuldfært mánaðarlega og fór skuldfærslan fram á tímabilinu 11. til 18. hvers mánaðar.
HHÍ gerði 17. september 2013 tilraun til þess að skuldfæra greiðslukort mannsins fyrir útdráttinn í október 2013. Ekki tókst að skuldfæra greiðslukortið þar sem notkun kortsins var komin umfram lánamörk þann mánuðinn.
Við milljónaúrdrátt HHÍ 10. október 2013 komu 10.000.000 kr. á númer miða mannsins en þar sem miðinn hafði ekki verið endurnýjaður þá fluttist fjárhæðin yfir í næsta flokk og bættist við milljónaútdráttinn þann mánuðinn. Sá útdráttur lenti á endurnýjaðan miða og fékk sá miðaeigandi því 20.000.000 kr. Því er umrædd fjárhæð ekki til staðar hjá HHÍ, að því er segir í dómi héraðsdóms.
Fram kemur í gögnum málsins að maðurinn segi að honum hafi fyrst verið kunnugt um þetta í árslok 2014 eða í mars 2015.
Með bréfi sem hann sendi til HHÍ dags. 27. mars 2015, er gerð krafa um að happdrættið greiddi honum vinning þann sem kom á áðurnefnt númer og taldi maðurinn að HHÍ hafi ekki verið heimilt að líta svo á að númerið væri ekki gilt í útdrættinum 10. október 2013. Í maí 2015 hafnaði happdrættið kröfu mannsins og höfðaði hann mál í kjölfarið.
Samkvæmt dómi héraðsdóms er ágreiningslaust að maðurinn festi kaup á svokölluðum trompmiða á heimasíðu HHÍ í ágúst 2011 og í skilmálum vegna kaupanna stóð að miðinn væri gildur frá og með næsta útdrætti og öllum útdráttum þaðan í frá á meðan greiðslusamningnum væri ekki sagt upp af hálfu mannsins og greiðsla myndi berast HHÍ fyrir viðkomandi útdrátt.
Þá er einnig ágreiningslaust að ekki reyndist unnt að skuldfæra greiðslukort mannsins 17. september 2013 þar sem notkun kortsins var komin umfram lánamörk þann mánuðinn. Kjarninn í málsókn mannsins er sá að hann telur að happdrættismiði hans hafi verið gildur, þrátt fyrir að hann hafi ekki greitt fyrir endurnýjun hans fyrir útdrátt og þar með brotið gegn skilmálum þeim er giltu er hann keypti miðann.
Dómari segir að við niðurstöðu málsins verður að líta til þess að um happdrætti er að ræða og að viðskiptavinir eru að kaupa væntingu um fjárhagslegan vinning. Stundum kemur vinningur en oftar ekki, allt eftir því hvernig útdrátturinn er. HHÍ starfar á grundvelli laga og reglugerðar og í samkeppni við önnur peningahappdrætti. Gera þarf að gera upp hvern flokk fyrir sig og því er gert ráð fyrir að viðskiptavinir hafi greitt fyrir endurnýjun miðans fyrir hvern útdrátt sem er í kringum 10. hvers mánaðar. Í þeim tilvikum sem greitt er með greiðslukorti er endurnýjunin skuldfærð fyrir 21. hvers mánaðar fyrir útdráttarmánuðinn svo stefndi hafi fengið uppgjör frá greiðslukortafyrirtækinu fyrir næsta útdrátt.
Þó að viðskiptavinir fái ef til vill greiðslufrest með því að setja endurnýjunina á greiðslukort þá er þessi viðskiptamáti í raun staðgreiðsluviðskipti fyrir stefnda. Það að viðskiptavinum HHÍ sé heimilað að greiða með greiðslukorti er í anda nútímaviðskiptahátta og stangast ekki við þau lög og reglugerðir sem um happdrættið gilda.
Með þessum greiðsluhætti er markmiðum laganna og reglugerðarinnar náð og skilmálum fullnægt, þar sem greitt er mánaðarlega fyrir hverja endurnýjun áður en útdráttur á sér stað.
Hins vegar er ekki hægt að líta svo á að með mánaðarlegri skuldfærslu á greiðslukort sé verið að kaupa ársmiða, þar sem ekki er tryggt að uppfyllt sé skilyrði skilmála HHÍ, um að greiðsla skuli hafa borist fyrir útdráttinn. Getur hvort sem er gerst að viðskiptavinur loki kortinu eða skipti um kort en samkvæmt gögnum málsins hefur maðurinn greitt endurnýjanir fyrir miðann með fjórum mismunandi greiðslukortum.
Það er á ábyrgð viðskiptavinar að tryggja að unnt sé að skuldfæra kortið og skiptir ekki máli hvenær tímabilsins skuldfærslan fer fram, enda ekki kveðið á um slíkt í skilmálum HHÍ.
Ekki er fallist á að maðurinn hafi keypt hinn uppdeilda happdrættismiða í áskrift enda ekki minnst á slíkt í skilmálum þeim er giltu við kaupin á miðunum. Þótt HHÍ sé stofnun og kaupandinn einstaklingur, þá liggur fyrir að maðurinn hefur víðtæka reynslu af kaupum á happdrættismiðum hjá HHÍ og þekkir eða má þekkja skilmálana vel. Telja verður að skilmálarnir séu einnig skýrir um meginatriði málsins, þ.e. að greiða þurfi fyrir miðann fyrir útdráttinn og er það skilyrði í samræmi við ákvæði laga um Happdrætti Háskóla Íslands og reglugerðir settar á grundvelli þeirra. Er það niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur að sýkna Happdrætti Háskóla Íslands af kröfu mannsins og honum gert að greiða málskostnað.