Sektin lækkuð úr 480 í 40 milljónir

Mjólkursamsalan.
Mjólkursamsalan. mbl.is/Kristinn

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að Mjólkursamsalan skyldi greiða 480 milljónir í stjórnvaldssekt vegna brota á samkeppnislögum. Aftur á móti taldi nefndin að fyrirtækið hefði framið alvarlegt brot með því að halda eftir mikilvægum gögnum frá eftirlitinu og sektaði fyrirtækið því um 40 milljónir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu 7. júlí að Mjólkursamsalan hefði brotið samkeppnislög og sektaði fyrirtækið um 480 milljónir króna. Fyrirtækið kærði niðurstöðuna 4. ágúst og tók áfrýjunarnefndin málið fyrir.

Meirihluti áfrýjunarnefndarinnar taldi að búvörulög víki samkeppnislögum til hliðar og ógildi því efnisniðurstöðu Samkeppniseftirlitsins. Minnihluti nefndarinnar taldi aftur á móti að MS hefði með alvarlegum hætti brotið af sér og misnotað markaðsráðandi stöðu sína og að álögð sekt væri hæfileg.

Nefndin var aftur á móti einhuga um að Mjólkursamsalan hefði brotið af sér með að halda mikilvægum gögnum frá Samkeppniseftirlitinu og var sekt vegna þess ákveðin 40 milljónir.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins byggði á því að fyrirtækið hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með alvarlegum hætti með því að selja keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS sjálft og tengdir aðilar fengu þetta hráefni á mun lægra verði, og að auki undir kostnaðarverði. Var þetta til þess fallið að veita MS og tengdum aðilum verulegt samkeppnisforskot og geta keppinauta til þess að keppa við MS og tengd félög skert með alvarlegum hætti.

Taldi Samkeppniseftirlitið að háttsemin væri til þess fallin að skaða á endanum hagsmuni  bæði neytenda og bænda. Þá lá fyrir að MS veitti Samkeppniseftirlitinu rangar upplýsingar og lét undir höfuð leggjast að upplýsa eftirlitið um mikilvæg gögn.

Fram kemur í tilkynningunni að Samkeppniseftirlitið muni nú fara yfir úrskurðinn og taka afstöðu til þess hvort rétt sé að bera hann undir dómstóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert