Ofþungi á vörubíl og dráttarvagni hans sem ekið var yfir brúna á Vatnsdalsá við Grímstungu í Austur-Húnavatnssýslu er meginástæða þess að brúin lét undan þunga.
Óhappið varð 18. ágúst á síðasta ári, en talið er að samanlögð þyngd bíls, vagns og malarfarms sem á var hafi verið rúmlega 57 tonn. Brúin er þó ekki talin hafa borið meira en 40 tonn, auk heldur sem skemmd í þrýstistöng skerti burðargetu hennar verulega.
Þetta er niðurstaða skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem gerði úttekt á málavöxtum. Leggur nefndin til að Vegagerðin kanni ástand eldri brúa sem enn eru í notkun víða um landið.