Ekki halli á launastöðu grunnskólakennara

Kennarar hafa tvívegis gengið úr vinnu upp á síðkastið til …
Kennarar hafa tvívegis gengið úr vinnu upp á síðkastið til að mæta á samstöðufund. Ófeigur Lýðsson

Ekki hallar á launastöðu grunnskólakennara þegar meðaldagvinnulaun þeirra eru skoðuð í samanburði við aðra háskólamenntaða starfsmenn sveitarfélaga. Grunnlaun nýútskrifaðs grunnskólakennara eru í dag 419 þúsund krónur og 441 þúsund taki hann að sér umsjónarkennslu. Meðaldagvinnulaun grunnskólakennara í Félagi grunnskólakennara eru í dag um 480 þúsund krónur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Í tilkynningunni er bent á að við gerð síðasta kjarasamnings sem hafði gildistímann 1. maí 2014 til 31. maí 2016 hafi verið samið um breytingar á vinnutímakafla kjarasamnings og launahækkanir sem ætlað var að rétta af launastöðu grunnskólakennara gagnvart öðrum háskólamenntuðum starfsmönnum sveitarfélaga. 

Sá samningur hafi leitt til þess að meðaldagvinnulaun félagsmanna hafa hækkað um 30% á samningstímanum. Byrjunarlaun grunnskólakennara hafi á sama tíma hækkað sem nemur um 34%, en það hafi þótt nauðsynlegt til að bregðast við lítilli ásókn í kennaranám.

Síðan í vor hafi tvisvar verið gerður samningur við Félag grunnskólakennara, annars vegar í lok maí og svo í lok ágúst á þessu ári. Þeir voru báðir felldir í atkvæðagreiðslu, en Samband íslenskra sveitarfélaga segir að þeir samningar hefðu tryggt kennurum sambærilegar hækkanir og samið hefur verið um við aðra hópa á vinnumarkaðinum fyrir árin 2016-18.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert