Tólf kennarar hafa sagt upp störfum í Norðlingaskóla í Reykjavík og átján hafa sagt upp í fjórum skólum af sex í Reykjanesbæ. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins eru uppsagnir í stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu einungis í Reykjavík auk þess að vera í Reykjanesbæ.
Ragnar Þór Pétursson, kennari í Norðlingaskóla, er einn þeirra kennara sem sagt hefur upp störfum í Norðlingaskóla. „Það er ofboðslega stór hópur sem ætlar ekki í aðgerðir ef upp úr viðræðum slitnar. Menn ætla ekki í verkföll og ætla ekki í einn hring enn heldur finna sér eitthvað annað að gera,“ segir Ragnar.
Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu 30 kennarar sagt upp störfum í Reykjavík í gær. Engar uppsagnir hafa borist til annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Í heild hafa því að lágmarki 60 kennarar sagt upp störfum. Ekki liggja fyrir tölur annars staðar á landinu.