Hafna stöðvunarkröfu Landverndar

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði kröfu Landverndar og Fjöreggs.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði kröfu Landverndar og Fjöreggs. mbl.is/Helgi Bjarnason

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur hafnað kröfu Landverndar um að stöðva framkvæmdir Landsnets við byggingu Kröflulínu 4 í landi Skútustaðahrepps. Þetta er niðurstaða nefndarinnar eftir fund sinn í dag.

Taldi nefndin að það væri almennt of viðurhlutamikið að stöðva framkvæmdir á þeim grundvelli einum að umhverfi yrði raskað, jafnvel þótt rask yrði umtalsvert og um sé að ræða umhverfi sem njóti sérstakrar verndar af einhverjum orsökum. Væri þá einsýnt að flestar þær framkvæmdir sem sæta mati á umhverfisáhrifum myndu verða stöðvaðar án þess að frekari skoðunar þyrfti við.

Frétt mbl.is: Önnur kæra vegna Kröflulínu 4

Skútustaðahreppur gaf út framkvæmdaleyfi vegna línulagnarinnar 26. október, en 7. nóvember kærðu Landvernd og Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit og Skútustaðahreppi, ákvörðunina. Var þess krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Frétt mbl.is: Ný framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4

Um er að ræða framkvæmdaleyfi fyrir 220 kV háspennulínu vegna stóriðju á Bakka.

Landsnet sótti fyrst um fram­kvæmda­leyfi í mars sem Skútustaðahrepp­ur veitti. Land­vernd kærði þann úr­sk­urð og í fram­hald­inu felldi úr­sk­urðar­nefnd um­hverf­is- og auðlinda­mála leyfið úr gildi.

Önnur línulögn hefur einnig verið umdeild en sveit­ar­stjórn Þing­eyj­ar­sveit­ar samþykkti  10. nóv­em­ber síðastliðinn um­sókn Landsnets vegna fram­kvæmda við Þeistareykjalínu 1. Landvernd skoðar nú forsendur fyrir að kæra þá ákvörðun einnig til úrskurðarnefndar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert