Vænlegt er að skoðuð verði vinnsla jarðefna í Geldinganesi næstu 30 til 40 árin vegna bygginga- og gatnagerðarframkvæmda í Reykjavík.
Tilgangurinn er að minnka stórlega útblástur gróðurhúsalofttegunda, minnka umferð á vegum, slit gatna, slysahættu og kostnað. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Sighvatur Arnarsson hjá Eflu, verkfræðistofu vann fyrir Reykjavíkurborg og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag.
Um er að ræða árlegan útblástur á tæpum 3.000 tonnum af gróðurhúsalofttegundum, flutning á um 1,3 milljónum tonna af jarðefnum á ári og 2 milljónum kílómetra í akstri.
Fram kemur í skýrslunni að vegna nálægðar Geldinganess við þéttbýlið í Reykjavík séu gríðarleg verðmæti fólgin í berginu sem þar er að finna.