Undanfarna daga hefur gengið á netinu myndband um meintan svikaferil Benedikts Jóhannessonar, formanns Viðreisnar. Benedikt hefur nú skrifað pistil á vefsíðu Heims þar sem hann ræðir meðal annars ásakanir myndbandsins.
Benedikt segist í pistlinum ekki ætla að svara fyrir allar ásakanirnar en hann svarar þó tveimur þeirra, annars vegar vegna Eimskipafélagsins og hinsvegar vegna Sjúkratrygginga Íslands.
Í myndbandinu er Benedikt sakaður um að hafa stuðlað að gjaldþroti Eimskipafélagsins. „Hið sanna í því máli er að Landsbankinn, sem þá var viðskiptabanki Eimskipafélasins, ákvað að leiða fjandsamlega yfirtöku á félaginu. [...] Þegar ég lét af formennsku var félagið fjárhagslega sterkt með tíu þúsund hluthafa, en eftir 9. október 2003 hafði ég engin afskipti af félaginu.“
Þá er Benedikt sakaður um að hafa komið Sjúkratryggingum Íslands á laggirnar til að einkavæða heilbrigðiskerfið. Vegna þessa segir hann: „Hér gætir mikils misskilnings. Sjúkratryggingar Íslands sjá um að greiða fyrir hlut ríkisins í heilbrigðisþjónustu og semja um verð á henni. [...] Sjúkratryggingar sjá ekki um neina einkavæðingu, en semja við aðila sem veita þjónustu, hvert sem rekstrarformið er.“ Því til stuðnings nefnir Benedikt að Ögmundur Jónasson, þáverandi heilbrigðisráðherra, sé ekki þekktur baráttumaður fyrir einkavæðingu en að þeir hafi engu að síður átt í góðu samstarfi á meðan Ögmundur var í ráðherrastól.
Benedikt leggur áherslu á það í pistli sínum að aðskilja verði menn og málefni. Samstarf hans og Ögmundar hafi einmitt einkennst af slíku viðhorfi sem og samskipti Benedikts við frændur sína Benedikt og Einar Sveinssyni, sem einnig koma við sögu í myndbandinu.
Benedikt vísar í reglur Viðreisnar þar sem meðal annars segir að góð orðræða sé hluti af grunngildum flokksins. Segir hann það stundum hafa reynst erfitt að halda aftur af „eitruðum athugasemdum“ í kosningabaráttunni en hann telur það þó hafa tekist „stórslysalaust að fylgja orðfæri Viðreisnar“.
Benedikt talar einnig um ummæli sem skrifuð voru um hann í kringum kosningabaráttuna en segir það yfirleitt ekki hafa mikil áhrif á sig þegar ókunnir menn skrifa um hann dylgjur og skammir. „En þegar fólk sem er allajafna sanngjarnt og réttsýnt fellur í þann pytt get ég snöggreiðst og gleymi þá góðum áformum um yfirvegaða umræðu.“