Ástæða þess að meirihlutinn í Fjallabyggð féll var trúnaðarbrestur sem kom upp á milli oddvita Fjallabyggðarlistans og annarra bæjarfulltrúa meirihlutans, en í meirihlutanum voru einnig jafnaðarmenn í Fjallabyggð. Í framhaldinu voru teknar upp viðræður milli jafnaðarmanna og Sjálfstæðisflokks um meirihlutasamstarf. Fyrir liggur málefnasamningur sem bíður samþykktar flokkanna á næstu dögum.
Þetta segir í tilkynningu frá Steinunni Maríu Sveinsdóttur, oddvita jafnaðarmanna í Fjallabyggð. mbl.is greindi frá því á föstudaginn að meirihlutinn væri fallinn.
Í tilkynningunni kemur fram að jafnaðarmenn harmi að til þessa hafi komið, en þakki því góða fólki sem standi að Fjallabyggðarlistanum fyrir gott og árangursríkt samstarf.
Ekki hefur náðst í fulltrúa flokkanna í dag eða gær.