Ljósin á Óslóartrénu á Austurvelli voru tendruð í dag, en þetta er í 64. skipti sem það er gert. Jólatréð er 12 metra hátt íslenskt grenitré úr norska lundinum í Heiðmörk. Fjöldi fólks var saman kominn við athöfnina, en auk þess var skemmtidagskrá fyrir gesti.
Það var Völundur Ingi Steen Bjarnason, 7 ára norsk-íslenskur drengur, sem kveikti á jólaljósunum í ár. Tendrun jólaljósanna á Óslóartrénu markar upphaf aðventunnar í borginni og minnir sem fyrr á áratuga vinasamband Reykjavíkur og Óslóarborgar.
Salka Sól og Valdimar sungu inn aðventuna fyrir viðstadda og Lúðrasveit Reykjavíkur flutti nokkur vel valin lög. Þá kíktu jólasveinar í bæinn og skemmtu börnum og fullorðnum. Gerður G. Bjarklind kynnti dagskrána, en þetta er í 17. skiptið sem hún gerir það.
Pottaskefill, ellefti jólaóróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, prýðir jólatréð. Í honum sameinast íslenskur menningararfur, hönnun og mikilsvert málefni. Allur ágóði af sölu hans rennur til starfs í þágu fatlaðra barna og ungmenna. Signý Kolbeinsdóttir hannaði óróann og leggur Snæbjörn Ragnarsson skáld til túlkunina. Júlía Óskarsdóttir, verðlaunahafi í stóru upplestrarkeppni grunnskólanna, flutti í dag kvæði Snæbjörns um Pottaskefil.