Greiða fjölmiðlum til að fjalla um þróunarmál

Utanríkisráðuneytið ætlar að greiða fjölmiðlum til að fjalla um þróunarmál.
Utanríkisráðuneytið ætlar að greiða fjölmiðlum til að fjalla um þróunarmál. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Utanríkisráðuneytið ætlar að greiða íslenskum fjölmiðli tíu milljónir króna til að fjalla um þróunarmál í eitt ár. Auglýst er eftir umsækjendum á vef Ríkiskaupa en ekki er um formlegt útboð að ræða. Tilgangurinn er sagður sá að auka umfjöllun frjálsra fjölmiðla um þróunarmál.

Í lýsingu verkefnisins hjá Ríkiskaupum kemur fram að stjórnvald sem fari með opinbera þróunarsamvinnu hafi ríkar skyldur um upplýsingagjöf um málaflokkinn. Þessar skyldur taki bæði til þess að upplýsa um hvernig skattfé sé varið og hvaða árangur hafi náðst, og einnig til þess að skapa almenna þekkingu um málefni þróunarríkja og baráttuna gegn fátækt og viðhalda þannig stuðningi við alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

Verkefnið sé til reynslu í eitt ár með áskilnaði um framlengingu tvisvar til eins árs í senn. Fyrirhugað sé að semja við einn íslenskan fjölmiðil. Ráðuneytið greiði viðkomandi fjölmiðli fyrir veitta þjónustu og verði miðlinum innan handar um ráðgjöf og upplýsingar um efni. Ritstjórnarlegt frelsi verði að fullu hjá viðkomandi fjölmiðli.

Tilnefndum fréttamanni sem sé starfsmaður viðkomandi fjölmiðils verði gert kleift að fara í kynnisferð til samstarfslands eða samstarfslanda og heimsækja verkefni á sviði tvíhliða þróunarsamvinnu. Sá kostnaður verði borinn af ráðuneytinu.

Greiðslur fyrir þjónustuna nemi 10 milljónum króna á ári. Samningsaðili þurfi að sýna fram á efndir samnings með framlögðum ársfjórðungslegum gögnum.

Kröfur um fjölda frétta og birtinga

Þeir sem vilja bjóða í verkefni þurfa að vera fréttamiðlar á íslenskum fjölmiðlamarkaði og reka vefmiðil með að lágmarki 120 þúsund flettingar á viku á fréttasíður samkvæmd samræmdri vefmælingu.

Nákvæmar kröfur eru um hversu margar fréttir fjölmiðillinn sem hreppir hnossið þarf að birta. Þannig þarf hann að lágmarki að birta sextíu fréttir upp á hundrað til fjögur hundruð orð sem tengjast þróunarmálum mánaðarlega, eða tvær fréttir að jafnaði á dag.

Þá þarf miðillinn að birta fjórar lengri fréttaskýringar (400-1000 orð) á mánuði sem tengjast þróunarmálum, eða eina fréttaskýringu að jafnaði á viku að lágmarki. Eins eru gerðar kröfur um framleiðslu á myndböndum og hlutfall frétta og fréttaskýringa sem eru birtar á aðalfréttasíðu fjölmiðilsins og á samfélagsmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert