Fjögurra manna fjölskyldu á Reykjanesi sem vísa átti úr landi um miðjan mánuðinn verður líklega vísað úr landi á næstunni. „Réttarstaða þeirra er óbreytt. Þau verða flutt úr landi nema einhver skipti um skoðun,“ segir Árni Freyr Árnason, lögmaður fjölskyldunnar. Hann vísar til þess að eina von fjölskyldunnar er til dæmis að ráðherra hlutist til um málið.
Þegar lögreglan kom á heimili þeirra um miðja nótt fyrr í mánuðinum og ætlaði að framkvæma brottvísunina var henni frestað. Ástæðan er sú að hagur barnanna var hafður að leiðarljósi.
Frétt mbl.is: Frestuðu brottvísun vegna barnanna
Árni Freyr segir að réttarstaða þeirra hafi ekki breyst. Kærunefnd útlendingamála synjaði endurupptöku á málinu en send var inn beiðni um endurupptöku á ákvörðun um frestun réttaráhrifa úrskurðsins.
Árni Freyr segir að fjölskyldunni verði ekki vísað úr landi fyrirvaralaust. „Ég geri ráð fyrir að við fáum að vita það með fyrirvara.“ Hann hefur ekki fengið upplýsingar um hvenær það verður.
Kærunefnd útlendingamála hefur komist að þeirri niðurstöðu að senda bæri fólkið til Ítalíu.