Talsverður verðmunur varð á sama Lego Friends-kassanum í Hagkaup í Smáralind á nokkra vikna tímabili. Á Tax Free-dögum í Hagkaup í Smáralind kostaði Lego Friends-dýralæknakassi 9.999 krónur án afsláttar, en hefði kostað um 7.500 kr. með 24,5% afslætti á þessum afsláttardögum. Í dag, 29. nóvember, var verðið á sama Lego-kassanum 5.489 kr. eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Arnar Óskar Þór Stefánsson vakti athygli á verðmuninum á Facebook-síðu sinni.
„Þetta er þá nýtt verð frá heildsalanum okkar,“ segir Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, spurður um verðmuninn. Heildsalan sem Gunnar vísar til er Duplo ehf.
Gunnar Ingi óskaði eftir að fá númer á umræddum Lego-kassa. Eftir það barst mbl.is skriflegt svar til frekari útskýringar:
„Við tókum verðkönnun í Toy's 15. nóv og þeir voru þá í útsöluverði 5.499 kr. Hagkaup semur um betra kostnaðarverð við birgja og skilar allri lækkun út og meiru til þannig að nýtt útsöluverð verður 5.489. kr. Til fróðleiks var kostnaðarverðið okkar töluvert hærra en útsöluverðið í Toy's sem sýnir samningsstöðu þeirra á innkaupsverði beint til framleiðanda.“
Stutt er síðan mbl.is greindi frá að 20.000 króna verðmunur væri á sama Lego-kassanum í vefverslun Hagkaupa og í vefverslun Tesco.
Frétt mbl.is: 20.000 króna munur á Hagkaup og Tesco
Í samtali við Gunnar Inga sagði hann að eftir fyrrgreint Lego-mál, sem kom upp 10. nóvember síðastliðinn, hafi Hagkaup farið yfir verðið á öllum Lego-kössum fyrirtækisins frá A-Ö. Eftir það hafi fyrirtækið einnig „tekið menn á teppið“ og spurt heildsalann frekar út í verðmunurinn. Gunnar Ingi vísar til þess að Hagkaup hafi fengið vörurnar á eldra verði frá heildsala.
Í lok nóvember er hámarksstaða á birgðum Hagkaups enda jólaverslunin fram undan. Gunnar Ingi býst ekki við að Hagkaup fái margar nýjar sendingar inn fyrir jólin en eflaust verður eitthvað um það. Neytendur mega því búast við að verðið á vörum gæti breyst.