Ekki greitt til að fjalla um ráðuneytið

Utanríkisráðuneytið býður fjölmiðli tíu milljónir króna til að fjalla um …
Utanríkisráðuneytið býður fjölmiðli tíu milljónir króna til að fjalla um þróunarmál. mbl.is/Hjörtur

Ætlun utanríkisráðuneytisins með að greiða fjölmiðli til segja frá þróunarmálum er ekki að fjalla aðeins um aðgerðir íslenskra stjórnvalda heldur um málaflokkinn í víðari skilningi. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins telur styrki sem þessa ekki setja fjölmiðla í erfiða stöðu og ekki standi til að hafa afskipti af efnistökum.

Mbl.is sagði frá tilraunverkefni utanríkisráðuneytisins, sem gengur út á að greiða fjölmiðli tíu milljónir króna á ári fyrir að fjalla um þróunarmál, í gær. Auglýst er eftir umsækjendum á vef Ríkiskaupa en ætlunin er að semja við einn fjölmiðil. Settar eru kröfur um að fjölmiðillinn verði að hafa tiltekna lágmarksumferð um fréttasíðu sína og hversu margar fréttir og greinar eru birtar á mánuði.

Frétt Mbl.is: Greiða fjölmiðlum fyrir umfjöllun

Í lýsingunni kemur meðal annars fram að stjórnvöld hafi skyldu til að upplýsa um hvernig skattfé sé varið og hvaða árangur hafi náðst, og einnig til þess að skapa almenna þekkingu um málefni þróunarríkja og baráttuna gegn fátækt og viðhalda þannig stuðningi við alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands.

Ef sú lýsing hljómar eins og ráðuneytið sé að nota almannafé til að afla stuðnings almennings við eigin aðgerðir segir Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins, að sú sé ekki raunin.

„Við lítum ekki þannig á. Við erum ekki að tala eingöngu um þær aðgerðir sem Ísland stendur að í þróunarmálum heldur líka hvað er að gerast í þeim. Við erum ekki að gera þetta til að kalla á umræðu um ráðuneytið heldur um þróunarmál,“ segir hún.

„Þróunarmál eru náttúrulega frekar vítt hugtak. Þetta eru loftslagsmál, þetta eru flóttamannamál, fátækt í heiminum, hungur og fleira,“ segir Urður enn fremur.

Að erlendri fyrirmynd hafi ráðuneytið ákveðið að styðja með opnum og gagnsæjum hætti við umfjöllun um þróunarmál. Ekki sé gerð krafa um kynningu á stefnu eða einstökum aðgerðum Íslands í þróunarmálum.

Leita eftir meiri útbreiðslu frétta

Samkvæmt þróunarsamvinnuáætlun sem Alþingi samþykkti er stjórnvöldum skylt að upplýsa og fræða um þróunarmál. Urður segir að ráðuneytið hafi gert könnun árið 2014 á þekkingu fólks á þróunarmálum. Í ljós hafi komið að svarendur væru jákvæðir í garð þróunarsamvinnu en hefðu ekki mikla vitneskju um hana.

„Við viljum reyna að standa okkur betur í að upplýsa og fræða um þessi mál. Þetta er einn liður í því,“ segir hún og bendir á að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi á sínum tíma kostað ferðir fjölmiðlamanna og greitt fyrir kynningarefni.

Ástæðan fyrir því að ráðuneytið vilji leita eftir samstarfi við fjölmiðla sé sú að það telji fréttir ekki fá eins mikla útbreiðslu ef það birti þær á eigin vefsíðu og ef þær birtist hjá fréttamiðli. 

„Við viljum bara auka umræðu og skilning á þessum málum. Það er á brattann að sækja fyrir okkur að koma á framfæri umfjöllun um okkar mál og það er bara gott að fá utanaðkomandi að,“ segir Urður.

Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.
Urður Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi utanríkisráðuneytisins.

Hefur trú á sjálfstæði fjölmiðla

Eins og gefur að skilja eru kostaðar umfjallanir viðkvæmt mál fyrir fjölmiðla. Taki fjölmiðill við fé frá utankomandi aðila gegn því að fjalla um tiltekin málefni geta vaknað upp spurningar um trúverðugleika hans og sjálfstæði. Urður hefur þrátt fyrir það ekki áhyggjur af því styrkir af því tagi sem ráðuneytið bjóði geti sett fjölmiðla í erfiða stöðu.

„Ég hef nú bara meiri trú á fjölmiðlum en svo að þeir geri það. Við ætlum ekki að fara að hafa afskipti af efnistökum á fjölmiðlum. Það er ekki ætlunin með þessu. Þessu fylgir fullt ritstjórnarfrelsi,“ segir hún spurð að því hvort styrkur sem þessi gæti gert það að verkum að fjölmiðill sem hann þiggur veigri sér til dæmis við að fjalla á gagnrýninn hátt um ráðuneytið í kjölfarið.

Urður bendir á að fjölmiðlamenn hafi áður þegið kostaðar ferðir og styrki án þess að það kæmi niður á gagnrýni þeirra.

RÚV kemur ekki til greina

Í lýsingu á verkefninu hjá Ríkiskaupum er kveðið á um að fréttmiðlar sem bjóða í það þurfi að hafa að lágmarki 120 þúsund flettingar á fréttasíðu sinni á viku samkvæmt samræmdri vefmælingu. Ef tekið er mið af mælingu Gallup á íslenskum fréttasíðum gætu Mbl.is, Vísir, DV og Pressan boðið í verkefnið.

Urður segir að Ríkisútvarpið geti ekki falast eftir verkefninu þar sem Ríkiskaup telji að fjölmiðill sem nýtur ríkisstyrkja geti ekki sótt um stuðninginn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert