„Þetta er allsendis fráleit kæra og ekki minnsti fótur fyrir henni eins og kemur í ljós þegar ákæruatriðin verða skoðuð. Ég hef ekki verið með neina hatursorðræðu,“ segir Jón Valur Jensson guðfræðingur.
Hann hefur verið ákærður fyrir hatursorðræðu vegna þriggja færslna sem hann birti á jonvalurjenson.blog.is.
Frétt mbl.is: Jón Valur ákærður fyrir hatursorðræðu
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur meðal annars ákært Jón Val fyrir eftirfarandi ummæli sem birtust á blogginu 21. apríl síðastliðinn:
„Fræðsla um fjölbreytileika mannsins“ á ekki að vera á hendi þeirra, sem hafa sína einhæfu, þröngu og skekktu sýn á kynferðismál. Samtökin 78 eru hagsmunasamtök, ekki hlutlægt og hlutlaust fræðasamfélag. Fulltrúar þessa samtaka hafa ekkert með það að gera að móta hugarfar barna, sem þeir eiga ekki […]
„Þetta kom mér á óvart. Ég hef ekki verið með nein gróf ummæli um þessa hinsegin fræðslu,“ segir Jón Valur. Í fyrrgreindum bloggfærslum ræðir hann um fræðslu Samtaka ‘78 í grunnskólum.
Jón Valur bendir á að hann hafi gert sér far um að fjalla málefnalega um kynhneigðarmál undanfarin 10 ár. „Ekki síst út frá kirkjulegu sjónarmiði,“ segir hann.
Í þessu samhengi bendir hann á að þegar hann var í námi erlendis fyrir allnokkrum árum hafi hann orðið var við að í aðsigi hafi verið sókn að kirkjunum varðandi hjónavígslur samkynhneigðra innan kirkjunnar. Hann er sjálfur ekki hlynntur því að samkynja hjónaband sé vígt innan kirkjunnar. Þegar slíkt fari fram sé ekki „farið eftir því sem stendur í Nýja testamentinu sem bæði Jesús og Páll postuli segja þar um hjónabandið,“ segi Jón Valur.
„Ég er kristinnar trúar. Ég tek því alvarlega sem Jesús segir að maður eigi að elska náungann eins og sjálfan sig,“ segir hann og ítrekar að hann hafi ekki verið með hatursorðræðu.