Listamenn eiga athvarf í Höfn Dominique

Dominique og Jean stofnuðu Höfn árið 2007 og hafa tekið …
Dominique og Jean stofnuðu Höfn árið 2007 og hafa tekið á móti fjölda lista- og fræðimanna síðan. Ljósmynd/Logi Hilmarsson

Dominique Poulain bjó um áratugaskeið á Íslandi og hefur síðan haldið tengslum við land og þjóð sem hún lítur á sem sína. Síðustu ár hefur hún auðgað líf margs íslensks listamannsins sem hefur dvalið hjá henni í öruggri Höfn í Marseille.

Margir muna eftir Dominique Poulain, frönsku leikbrúðukonunni sem setti svip sinn á listalíf Reykjavíkur á níunda áratugnum.

„Ég var grímu- og leikbrúðugerðarkona og vann fyrir bíómyndir, sjónvarp, auglýsingar og leikhús. Í Frakklandi hafði ég mikið unnið í leikbrúðuleikhúsum og árið 1981 var mér boðið að taka þátt í þriggja mánaða námskeiði fyrir upprennandi leikbrúðugerðarfólk í Charleville-Mézieres, þar sem alþjóðleg leikbrúðuhátíð er haldin. Þar kynntist ég Messíönu Tómasdóttur, sem hafði áhrif á að ég ákvað að fara í þrjá mánuði til Íslands – sem urðu tíu ár. Ég bjó á Íslandi 1982-1992,“ segir Dominique sem í dag hefur á heimili sínu í Marseille listamannaíbúðina Höfn, sem margir íslenskir listamenn þekkja til og hafa dvalið í.

Hugmyndin mótast

Eftir Íslandsdvölina flutti Dominique aftur til Frakklands með son sinn Loga sem fæddist á Íslandi, og í Marseille fann hún ástina í Jean, besta vini sínum frá menntaskólaárunum.

„Við Jean stofnuðum Höfn árið 2007 eftir að hafa mótað hugmyndina í nokkur ár. Á árunum 1992-2007 hafði ég bara efni á að fara þrisvar til Íslands, en aftur á móti bauð ég mörgum íslenskum vinum mínum heim til okkar í Marseille, og þeir höfðu mjög gaman af því,“ segir Dominique

„Annað sem hafði áhrif á að við komum á fót listamannabústaðnum Höfn var að húsið okkar er mjög stórt. Það er gamall bóndabær byggður árið 1902, kannski ekki mjög fallegt en sjarmerandi hús. Þegar dóttir Jeans og Logi flugu úr hreiðrinu fannst okkur það of stórt og fórum að taka að okkur að hýsa listamenn sem voru að vinna í Marseille til skamms tíma.“

Skrifað á marga vegu

Núna er í Höfn lítil íbúð með öllu; svefnherbergi, baðherbergi, eldhúsi og vinnuhorni, umkringd litlum fallegum garði.

„Þetta er allt saman alveg prívat, þótt íbúðin sé áföst okkar húsi. Fólkið sem dvelur þar getur verið alveg út af fyrir sig, en ég er alltaf tilbúin að aðstoða og hjálpa við hvað sem er. Í Höfn dvelja alls konar listamenn, árið um kring.

Ég talaði fyrst um við Jean að við skyldum bjóða rithöfundum, skáldum og þýðendum að dvelja þarna. Hugmyndin var bókmenntatengd frá mínu sjónarhorni, líka af því að það er engin vinnustofa í íbúðinni, eins og t.d. fyrir myndhöggvara. En svo vildum við víkka skilgreininguna út og bjóða líka tónlistarfólki, tölvufræðingum og fræðimönnum hvers konar. Öllu fólki sem er að „skrifa“ á sinn hátt; fólki sem þarf bara blað og penna eða tölvu til að vinna sína vinnu. Ljósmyndari sem hefur komið til okkar, segist vera að „skrifa“ borgina þegar hann myndar Marseille. Við köllum Höfn „une escale d'écriture(s)“ sem má þýða sem ritviðkomuhöfn.“

Höfn í mörgum skilningi

„Mér datt strax í hug að þetta ætti að heita Höfn. Marseille er risastór höfn, en við búum í norðurhverfi borgarinnar, sem hefur á sér slæmt orð, en sem við elskum og viljum vernda. Rétt hjá okkur er önnur og minna heillandi iðnaðarhöfn. Höfn er fyrir mér eins og á íslensku og ensku „haven“, staður sem maður er öruggur á, en líka „harbour“ þar sem fólk vinnur. Mér fannst því nafnið passa vel til að tengja Marseille og Reykjavík, jafnvel þótt Frakkar geta ekki borið það fram,“ segir Dominique og hlær.

„Þótt nafnið sé íslenskt og félagið pinkulítið er það samt alþjóðlegt. Ég hef tekið á móti fólki alls staðar að úr heiminum, eins og sjá má á heimasíðu Hafnar. Nú síðustu ár hafa komið margir Íslendingar og sumir oftar en einu sinni.“

Dominique segir mjög misjafnt hversu lengi fólk dvelji hjá þeim, en oftast sé það í einn til tvo mánuði, en það megi ekki vera lengur en í fjóra mánuði.

„Það er ekki bannað að vera bara í eina viku, en það er bara rétt svona til að finna lyktina af Marseille og listamannaíbúðinni, kynnast okkur og sjá hvort fólk haldi að þetta sé rétti staðurinn fyrir það til að koma og vinna á.“

Nýir vinir og gönguferðir

Mikilvægur þáttur í starfsemi Hafnar er að koma gestunum í samband við listamenn og fræðimenn í Marseille.

„Jean er kennari í myndlistarskólanum í Aix-en-Provence, og við þekkjum margt fólk í lista- og fræðimannageiranum. Ég byrja alltaf á því að kynna gestinum okkar hverfið og sögu þess. Síðan finn ég út hvað hann þarf til þess að fá sem mest út úr dvöl sinni í Höfn og í Marseille. Oft held ég matarboð og kynni hann fyrir einum af vinum okkar sem mér finnst hann eiga eitthvað sameiginlegt með. Við bjóðum fólki með okkur á tónleika og alls konar uppákomur, og á hverjum degi er ég með hugmynd að einhverju skemmtilegu að gera.“

Höfn er líka hluti af íbúasamtökum norðurhluta Marseille, sem nefnist „Hotel Du Nord“ sem er reyndar titill á mjög frægri gamalli bíómynd.

„Það er mikil saga í þessu hverfi og samtökin bjóða upp á göngutúra með einstakri leiðsögn íbúanna sem oftar en ekki eru fræðimenn. Gestirnir okkar hafa haft mjög gaman af því að taka þátt í þeim.“

Ísland er líka landið mitt

„Hjá okkur er ekkert opinbert val eins og í frægum og stórum listaresidensíum, og við viljum ekki fá fólk af því að það er frægt eða hefur gefið frá sér visst mikið efni. Ef þú ert ungur og upprennandi listamaður, sem hefur jafnvel aldrei gefið neitt út, þýðir það alls ekki að þú komist ekki að hjá okkur í Höfn. Listamennirnir senda okkur upplýsingar um sig og verkefnið sem þeir ætla að vinna að í Höfn, og við veljum eftir því hvort okkur finnist við hafa eitthvað að bjóða þeim sem skiptir þá máli og getur auðgað líf manneskjunnar og listamanninn sem hún geymir,“ segir Dominique, sem óskar þess að fólk gæti fengið styrk frá landinu sínu til að dvelja í Höfn, en hún segir allt of mikla skriffinnsku fylgja því að sækja um styrki frá franska ríkinu.

„Þess vegna þarf fólk að borga smá leigu sem er 490 evrur á mánuði, en það er allt innifalið í því, auk þess sem ég þvæ af fólki föt og rúmfatnað og er alltaf boðin og búin að hjálpa.“

Hefur Höfn hjálpað þér að halda íslenskunni þinni svona vel við?

„Ísland er alveg jafnmikið landið mitt og Frakkland er. Ég lærði þetta tungumál og hef reynt að geyma eins mikið af því inni í mér og ég hef getað. Nú koma margir Íslendingar til mín að dvelja í Höfn, sem er auðvitað gott tækifæri til þess að æfa mig. Sonur minn býr á Íslandi og þar á ég líka ömmustrákinn Úlf, svo ég reyni núorðið að fara einu sinni á ári að heimsækja þá,“ segir Dominique að lokum.

Nánari upplýsingar: www.hofn.free.fr
Ragnar Helgi Ólafsson, fjöllistamaður, og kisan Pastisse njóta góðs af …
Ragnar Helgi Ólafsson, fjöllistamaður, og kisan Pastisse njóta góðs af einu af dásemdarmatarboðum Dominique.
Hjónin Linda Vilhjálmsdóttir og Mörður Árnason með Jean og Dominique …
Hjónin Linda Vilhjálmsdóttir og Mörður Árnason með Jean og Dominique sem sýndu þeim syðsta hluta Marseille-borgar
Fagurt suðurevrópskt umhverfi blasir við úr gluggunum í Höfn.
Fagurt suðurevrópskt umhverfi blasir við úr gluggunum í Höfn. Ljósmynd/Matthías Kristiansen
Í garði Hafnar í Marseille.
Í garði Hafnar í Marseille.
Uppskera úr garði Hafnar hjá Dominique Poulain.
Uppskera úr garði Hafnar hjá Dominique Poulain.
Í Höfn í Marseille, hjá Dominique Poulain.
Í Höfn í Marseille, hjá Dominique Poulain.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert