Óþolandi að menn hagi sér svona

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var mjög sjokkerandi og ljóst að þetta kallar á einhver viðbrögð frá okkur. Við erum bara að fara yfir málin akkúrat núna,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs-og landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is.

Kastljósþáttur gærkvöldsins vakti hörð viðbrögð en þar kom fram að eggjaframleiðandinn Brúnegg blekkti neytendur með sölu á vistvænum eggjum fyrirtækisins. Starfsfólk Matvælastofnunar hefur ítrekað gert athugasemdir við aðbúnað á eggjabúum Brúneggja.

„Auðvitað er það slæmt. Við þurfum að fá einhvern til að fara yfir hvort ferlarnir og annað hafi verið í lagi. Einhvers staðar er pottur brotinn í verklaginu, það er alveg ljóst,“ segir Gunnar.

Spurður hvort það sé ekki of seint að bregðast við málinu núna segir Gunnar að það þurfi að passa að svona nokkuð gerist ekki aftur. „Það er aldrei of seint að koma í veg fyrir það. Þetta er vitanlega alveg óþolandi, að menn skuli haga sér svona.

Gunnar vildi ekki tjá sig um hvort eða hvernig ætti að refsa mönnum sem yrðu uppvísir að dýraníði eins og sást í Kastljósþættinum. „Ég ætla ekkert að tjá mig um það neitt en það eru ákveðin lög og reglur sem gilda og við þurfum að fara yfir hvort þau eru nóg sterk og hvort eftirlitsaðilar hafi brugðist. Það þurfum við að gera.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert