„Það eru margar hliðar á þessu máli,“ segir Kristinn Gylfi Jónsson, framkvæmdastjóri Brúneggja, í samtali við mbl.is. Eins og kom fram í Kastljósi í gærkvöldi hafa Brúnegg blekkt neytendur um árabil en fyrirtækið seldi egg sem áttu að vera vistvæn á tæplega 40% hærra verði en búrhænuegg, enda voru þau merkt vistvæn landbúnaðarafurð.
Margar verslanir hafa ákveðið að taka eggin úr sölu hjá sér og því ljóst að rekstrarstaða fyrirtækisins er viðkvæm. Melabúðin, Krónan, Hagkaup, Bónus, Kostur og Samkaup hafa allar tekið eggin úr sölu.
„Staðan er erfið. Flestir okkar viðskiptavinir, sem kaupa egg af okkur, hafa sagt upp viðskiptum við okkur, eins og staðan er í augnablikinu,“ segir Kristinn en ætlunin sé að sýna fram á að rekstur fyrirtækisins sé í góðu lagi.
„Við ætlum að bjóða fjölmiðlum að koma og sjá hvernig búreksturinn er hjá okkur og einnig verslunar- og viðskiptamönnum til að þeir geti séð hvernig staðan er hjá okkur. Þá sjáum við hvort við getum endurunnið traust á þeim grunni til að viðskipti geti hafist aftur.“
Kristinn telur að hlutirnir séu í lagi hjá fyrirtækinu „og við höfum fullt leyfi til að framleiða okkar vöru og erum með fullt starfsleyfi.“ Hins vegar geti það vel verið að erfitt verði að endurvinna rúið traust.
„Þetta voru hins vegar upplýsingar liðsins tíma og dæmi um ákveðin frávik sem skýrt var frá, sem eru auðvitað frávik frá eðlilegum rekstri og eru alls ekki lýsandi dæmi um hvernig hefur verið á okkar búum í gegnum árin,“ sagði Kristinn. „Við höfum ekkert að fela.“
Aðspurður segist hann ekki hafa hugmynd hvað gerist ef fyrirtækið fer á hausinn. „Það getur vel verið að við verðum að loka okkar rekstri alfarið. Ég veit ekkert hvað gerist þá.“